Hildur Guðjóns í Víking

Hildur Guðjónsdóttir

Handknattleiksdeild Víkings hefur samið við vinstri skyttuna Hildi Guðjónsdóttur, sem kemur til félagsins frá FH. Hildur hefur skrifað undir tveggja ára samning við félagið. Þetta tilkynnir Víkingur á samfélagsmiðlum sínum í kvöld.

,,Hildur er öflug skytta með mikinn skotkraft og reynslu af keppni á efsta stigi. Hún er þekkt fyrir skotgetu langt utan af velli og skynsamlega spilamennsku. Undirskrift hennar er mikilvæg fyrir lið Víkings og styrkir hópinn bæði hvað varðar gæði og breidd," segir í tilkynningu Víkings.

Sebastian Alexandersson, þjálfari meistaraflokks kvenna hafði þetta að segja um nýjan leikmann liðsins.

„Styrkur Hildar liggur fyrst og fremst í öflugu skoti utan af 9 metrunum og góðu auga fyrir leiknum. Hún bætir liðið strax og eykur breiddina verulega – sem er lykilatriði þegar kemur að því að takast á við langa og krefjandi leiktíð. Við erum gríðarlega ánægð með að fá hana í hópinn.“

Aðalsteinn Eyjólfsson, yfirmaður handknattleiksmála Víkings bætti við.

„Markmiðið okkar er að byggja upp sterkan og metnaðarfullan hóp sem getur barist í efri hluta Grill 66-deildarinnar og stefnt á sæti í Olís-deildinni. Undirskrift Hildar er mikilvægt skref í þeirri vegferð. Hún kemur með gæði, reynslu og kraft sem mun nýtast liðinu vel.“

Hildur Guðjónsdóttir er mjög spennt fyrir nýjum kaflaskilum á sínum ferli.

„Ég hlakka til að verða hluti af þessu metnaðarfulla verkefni hjá Víkingi. Mér líst mjög vel á umgjörðina og þá sýn sem félagið hefur. Ég ætla að leggja mig alla fram og vonast til að hjálpa liðinu að ná langt.“

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top