Talant Dujshebaev Alex Dujshebaev (Anke Waelischmiller/SVEN SIMON / SVEN SIMON / dpa Picture-Alliance via AFP)
Spænsku bræðurnir Alex og Daniel Dujshebaev yfirgefa pólska stórliðið Kielce eftir tímabilið sem framundan er, eða sumarið 2026 og hefur faðir þeirra sem er jafnframt þjálfari liðsins, Talant Dujshebaev, staðfest brottför þeirra. Þetta er greint frá í franska handboltafjölmiðlinum Handnews. Báðir hafa þeir verið í algjöru lykilhlutverki hjá Kielce undanfarin ár en þeir gengu í raðir félagsins sumarið 2017 en yngri bróðurinn, Daniel fór þó á lán á fyrsta ári sínu. Talant Dujshebaev leynir því ekki að gagnrýni á náið samstarf fjölskyldunnar hafi haft áhrif á ákvörðunina hjá bræðrunum að skipta um umhverfi eftir tímabilið. „Ég hef heyrt í mörg ár að Alex og Dani spili aðeins í Kielce vegna þess að ég er faðir þeirra. Báðir hafa verið gagnrýndir mikið,“ segir Talant Dujshebaev, sem leggur einnig áherslu á að synirnir muni ekki eiga í neinum vandræðum með að finna ný félög. Industria Kielce hafa nú þegar fyllt í þau skörð sem bræðurnir skilja eftir sig en franski landsliðsmaðurinn og leikmaður Nantes, Julien Bos og króatíski leikmaður Zagreb, Luka Lovre Klarica ganga til liðs við félagið næsta sumar. Þá mun hinn ungi og gríðarlega efnilegi Nígeríumaður, Faruk Yusuf snúa til baka eftir tveggja ára veru hjá franska liðinu Limoges. Í sumar bætast við sterkir leikmenn við leikmannahóp pólska liðsins. Meðal þeirra eru pólski landsliðsmarkvörðurinn Adam Morawski sem kemur frá Melsungen, leikstjórnandinn Piotr Jędraszczyk sem kemur til baka úr láni og vinstri hornamaðurinn Piotr Jarosiewicz frá pólska liðinu Azoty Pulawy auk þess sem slóvenski landsliðsmaðurinn Aleks Vlah kemur frá Álaborg. Talant Dujshebaev er sannfærður um að Kielce geti haldið áfram að berjast á toppnum í evrópskum handbolta og segir það raunhæft markmið að geta farið alla leið í Meistaradeildinni á næstu árum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.