Guðjón Baldur Ómarsson
Selfyssingar sem eru nýliðar í Olís-deildinni eftir sigur á Gróttu í umspilinu verða fyrir mikilli blóðtöku fyrir næsta tímabil. Hægri hornamaður Selfyssinga síðustu tímabila, Guðjón Baldur Ómarsson mun ekki leika með liðinu í Olís-deildinni í vetur. Þetta staðfesti Guðjón Baldur í samtali við Handkastið. Guðjón Baldur var næst markahæsti leikmaður Selfoss í Grill66-deildinni á síðustu leiktíð með 62 mörk í 15 leikjum. ,,Við fjölskyldan er flutt til Danmerkur að prófa nýja hluti og ég verð því ekki með Selfossi í Olís-deildinni í vetur," sagði Guðjón Baldur í samtali við Handkastið. Guðjón er annar leikmaðurinn sem yfirgefur Selfoss liðið í sumar en markvörðurinn Jón Þórarinn Þorsteinsson gekk í raðir deildarmeistara FH fyrr í sumar. Selfoss leikur á nýjan leik í Olís-deildinni eftir eins árs dvöl í Grill66-deildinni þar sem liðið endaði í 2.sæti deildarinnar en komst upp eftir sigur á Gróttu eins og fyrrgreinir.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.