Myndin tengist fréttinni ekki beint ((Kristinn Steinn Traustason)
Það er ekki fjölmennt þorpið, Válur í Færeyjum sem getur státað sig á því að hafa átt þrjá færeyska landsliðsmenn sem tóku þátt á Heimsmeistaramóti U-21 árs sem fram fór í Póllandi í síðasta mánuði. Færeyska landsliðið sló heldur betur í gegn á mótinu og sótti bronsið þegar upp var staðið. Válur er 45 manna þorp sem tilheyrir sveitarfélaginu Kvívík en er statt nærri sveitarfélaginu Vestmanna. Færeyjar töpuðu í tvíframlengdum leik í undanúrslitum gegn Portúgal.
„Það eru líklega ekki margir staðir með aðeins 45 íbúum sem geta státað af þremur landsliðsmönnum,“ segir í frétt In.fo.
Um er að ræða þá Eyðbjørn Heini Danielsen vinstri skyttu og leikmann VÍF, vinstri hornamanninn Óla Jákup Gaard Olsen einnig leikmann VÍF Vestmanna og Aleksandar Lacok markvörð og leikmann Lugi í Svíþjóð.
Færeyska U21 landsliðið tók þátt í heimsmeistaramótinu í handbolta sem fram fór í Póllandi og var með Íslandi í riðli. Færeyjar og Ísland skildu jöfn 35-35 í öðrum leik liðanna á mótinu. Færeyjar töpuðu einungis einum leik á mótinu í venjulegum leiktíma en það var gegn Heimsmeisturum Dana í milliriðli.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.