Tveir reynslu miklir leikmenn Fram liggja undir feldi
(Kristinn Steinn Traustason)

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson ((Kristinn Steinn Traustason)

Tveir leikmenn Íslands- og bikarmeistara Fram eru samningslausir og hafa ekki tekið ákvörðun um framtíð sína. Um er að ræða fyrirliða Fram á síðustu leiktíð, Magnús Öder Einarsson og vinstri skyttuna, Þorstein Gauta Hjálmarsson.

Samkvæmt heimildum Handkastsins hafa þeir báðir fengið tilboð frá Fram um áframhaldandi samning en báðir liggja þeir undir feldi og á meðan þeir ákveða framtíð sína.

Samkvæmt heimildum Handkastsins stendur valið hjá Magnúsi Öder á milli þess að vera áfram hjá Fram eða taka sér pásu frá handboltanum. Hann vildi lítið tjá sig við Handkastið þegar haft var samband við hann í gær. ,,Eins og er, er ég samningslaus og þetta er í skoðun. Ég er með samning á borðinu frá þeim en ég hef ekki tekið neina ákvörðun."

Staðan hjá finnska landsliðsmanninum, Þorsteini Gauta Hjálmarssyni er hinsvegar aðeins öðruvísi þar sem leikmaðurinn ku vera reyna leita sér að liði erlendis fyrir næstu leiktíð.

Framarar sem eru ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar hafa misst tvo leikmenn út í atvinnumennsku í sumar. Besti leikmaður Olís-deildarinnar og úrslitakeppninnar, Reynir Þór Stefánsson er genginn í raðir Melsungen í þýsku úrvalsdeildinni og Tryggvi Garðar Jónsson gekk í raðir Alpla Hard í Austurríki.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top