HÖJ (Höj Elite)
Nýliðarnir í dönsku úrvalsdeildinni, HØJ Elite Handball hefur ákveðið að gera samning við danska handknattleiksmannasambandið um fæðingarorlof leikmanna félagsins. Samningurinn nær til bæði karla og kvenna og tók gildi frá og með 1. júlí 2025. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. ,,Ákvörðunin var tekin út frá ósk stjórnenda um að tryggja skýr og sanngjörn kjör fyrir alla starfsmenn - óháð kyni - og skapa gagnsæi og stöðugleika fyrir bæði leikmenn og félagið," segir í tilkynningunni. „Við hefðum viljað sjá sameiginlegan samning sem næði til allra félaga, en því miður sjáum við engin merki um að slíkur samningur sé yfirvofandi. Að minnsta kosti ekki hvað varðar karla leikmennina. Þegar eða ef slíkur samningur kemur, þá gerum við auðvitað ráð fyrir að taka þátt í þeim samningi,“ segir Helle Rasmussen, stjórnarformaður HØJ Elite. Félagið segist leggja áherslu á að handknattleikur sé í dag atvinna fyrir marga leikmenn félagsins og ekki bara tómstundaiðja. Þetta felur einnig í sér ábyrgð á að tryggja vinnuskilyrði sem eru í samræmi við tíðarandann og aðstæður á öðrum vinnumarkaði. „Í HØJ Elite höfum við starfsmenn bæði í karla- og kvennaflokki og við viljum að allir leikmenn hafi skýra mynd af starfskjörum sínum, þar á meðal auðvitað þegar kemur að fæðingarorlofi," segir Lars Vinther framkvæmdastjóri HÖJ Elite. Vinther bendir á að samkvæmt núgildandi lögum og réttindum leikmanna þá hafi karlkyns leikmenn ekki tækifæri til að nýta sér fæðingarorlof stundi þeir handknattleik, þessu vildi HÖJ breyta.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.