Náum vonandi heilsteyptari frammistöðu á morgun
(Baldur Þorgilsson)

Ágúst er þjálfari U19 ára landsliðsins. (Baldur Þorgilsson)

U19 ára kvennalið Íslands tapaði í morgun sínum fyrsta leik á EM sem fram í fer í Svartfjallalandi. Ísland mætti sterku liði Danmerkur í opnunarleik mótsins og tapaði 31-25 eftir að staðan hafi verið 15-10 Dönum í vil í hálfleik.

Handkastið heyrði í Ágústi Jóhannssyni þjálfara liðsins eftir leik og spurði hann út í leikinn.

,,Við byrjuðum leikinn ekki nægilega vel og varnarleikurinn var heldur of opinn. Eins vorum við að gera okkur seka um of mörg mistök í sókninni," sagði Ágúst sem var ánægður með baráttuna hjá liðinu í leiknum gegn erfiðum andstæðingum.

,,Við komum okkur svo vel inn í leikinn og erum í rauninni klaufar að vera fimm mörkum undir í hálfleik, við hefðum hæglega getað verið 2-3 mörkum undir," sagði Ágúst en eins og fyrr segir var staðan í hálfleik 15-10 Dönum í vil.

,,Í seinni hálfleik vorum alltaf að elta Danina sem eru með feikilega öflugt lið og við vissum það."

Ágúst segist hafa séð margt jákvætt í leik íslenska liðsins sem mætir Litháen í fyrramálið klukkan 10:00 á íslenskum tíma.

,,Það var margt sem var gott í okkar leik sem við getum byggt ofan á í framhaldinu. Við vissum að þetta yrði erfiður leikur. Nú þurfum við að fara einbeita okkur að leiknum í fyrramálið og vonandi náum við heilsteyptari frammistöðu gegn Litháen."

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top