Ágúst er þjálfari U19 ára landsliðsins. (Baldur Þorgilsson)
U19 ára kvennalið Íslands tapaði í morgun sínum fyrsta leik á EM sem fram í fer í Svartfjallalandi. Ísland mætti sterku liði Danmerkur í opnunarleik mótsins og tapaði 31-25 eftir að staðan hafi verið 15-10 Dönum í vil í hálfleik. Handkastið heyrði í Ágústi Jóhannssyni þjálfara liðsins eftir leik og spurði hann út í leikinn. ,,Við byrjuðum leikinn ekki nægilega vel og varnarleikurinn var heldur of opinn. Eins vorum við að gera okkur seka um of mörg mistök í sókninni," sagði Ágúst sem var ánægður með baráttuna hjá liðinu í leiknum gegn erfiðum andstæðingum. ,,Við komum okkur svo vel inn í leikinn og erum í rauninni klaufar að vera fimm mörkum undir í hálfleik, við hefðum hæglega getað verið 2-3 mörkum undir," sagði Ágúst en eins og fyrr segir var staðan í hálfleik 15-10 Dönum í vil. ,,Í seinni hálfleik vorum alltaf að elta Danina sem eru með feikilega öflugt lið og við vissum það." Ágúst segist hafa séð margt jákvætt í leik íslenska liðsins sem mætir Litháen í fyrramálið klukkan 10:00 á íslenskum tíma. ,,Það var margt sem var gott í okkar leik sem við getum byggt ofan á í framhaldinu. Við vissum að þetta yrði erfiður leikur. Nú þurfum við að fara einbeita okkur að leiknum í fyrramálið og vonandi náum við heilsteyptari frammistöðu gegn Litháen."
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.