Stelpurnar töpuðu fyrsta leiknum á EM. (Jóhann Ingi Guðmundsson)
U19 ára kvennalið Íslands tapaði í morgun sínum fyrsta leik á EM sem fram í fer í Svartfjallalandi. Ísland mætti sterku liði Danmerkur í opnunarleik mótsins og tapaði 31-25 eftir að staðan hafi verið 15-10 Dönum í vil í hálfleik. Danska liðið var með undirtökin allan leikinn og komst mest sjö mörkum yfir í fyrri hálfleik 14-7. Íslenska liðið átti fínan endasprett í fyrri hálfleik og minnkaði muninn í fimm mörk. Íslenska liðið komst ekki nær en það og hélt danska liðið ávallt góðu forskoti og komst mest níu mörkum yfir 25-16. Aftur átti íslenska liðið góðan endasprett og náði að minnka muninn í fjögur mörk 28-24 en leiknum lauk síðan með sex marka sigri 31-25 eins og fyrr segir. Bergrós Ásta Guðmundsdóttir leikmaður KA/Þórs var markahæst með fimm mörk. Valsstelpurnar Ásthildur Þórhallsdóttir og Arna Karítas Eiríksdóttir skoruðu fjögur mörk hvor ásamt Dagmari Guðrúnu Pálsdóttur leikmanni Fram. Næsti leikur liðsins verður gegn Litháen í fyrramálið klukkan 10:00. Mörk Íslands: Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 5/1, Ásthildur Þórhallsdóttir 4, Arna Karítas Eiríksdóttir 4, Dagmar Guðrún Pálsdóttir 4, Alexandra Ósk Viktorsdóttir 3, Guðrún Hekla Traustadóttir 2, Ásrún Inga Arnarsdóttir 1, Gyða Kristín Ásgeirsdóttir 1, Hulda Hrönn Bragadóttir 1. Varin skot: Elísabet Millý Elíasardóttir 11, 44% - Ingunn María Einarsdóttir 2/1, 10,5%.
(Tölfræðin er fengin af Handbolti.is)
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.