Ekki endilega okkar besta frammistaða
(Baldur Þorgilsson)

Ágúst ræðir við liðið í leiknum í gær. ((Baldur Þorgilsson)

Ágúst Jóhannsson þjálfari U19 ára kvenna landsliðs Íslands var að vonum himinlifandi eftir sigur liðsins á Litháen í öðru leik liðsins á EM sem fram fer í Svartfjallalandi þessa dagana. Eftir tap gegn Danmörku í gærmorgun þurfti íslenska liðið sigur í dag til að eiga von um að komast uppúr riðlinum.

Ísland hafði betur í leiknum 31-27.

,,Númer eitt, tvö og þrjú er ég auðvitað ánægður með sigurinn og að ná í þau stig sem voru í boði. Þetta var ekki endilega okkar besti frammistaða en þetta dugði til að klára tvo punkta sem var aðal markmiðið," sagði Ágúst í samtali við Handkastið.

Hann segir byrjunina á leiknum hafa verið brösuglega en Litháen komst mest þremur mörkum yfir um miðjan fyrri hálfleik. ,,Við vorum miklir klaufar framan af leik og vorum að tapa boltanum í hraðarupphlaupum og fara illa með færin. Að auki vorum við að fá á okkur ódýrar tveggja mínútna brottvísanir. Við vorum klaufar varnarlega sem við þurfum að laga fyrir næsta leik."

Hann var virkilega ánægður með leik liðsins í seinni hálfleik þar sem vörnin hafi haft mikil áhrif.

,,Við náðum fínum tökum á leiknum sérstaklega í upphafi seinni hálfleiks og náðum að keyra vel í bakið á þeim. Við fórum í 5-1 vörn sem gekk vel, við unnum nokkra bolta. Við gáfum síðan full mikið eftir á loka kaflanum en unnum sannfærandi sigur."

Framundan er úrslitaleikur gegn heimakonum í Svartfjallalandi á laugardaginn um sæti í milliriðli.

,,Við þurfum að halda góðum fókus fyrir leikinn á laugardaginn gegn Svartfjallalandi sem verður hreinn úrslitaleikur um það hvort við komumst uppúr riðlinum. Við sáum Svartfjallaland spila í gær og þær eru með sterkt lið og það er fjölmennt lið sem mætir á leikina þeirra og styður þær áfram. Það verður spennandi verkefni en við nýtum næstu tvo daga til að undirbúa okkur eins vel og við getum fyrir leikinn," sagði Ágúst Jóhannsson þjálfari U19 ára kvennalandsliðs Íslands.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top