Stelpurnar unnu Litháen. ((Jóhann Ingi Guðmundsson)
Íslenska kvennalandsliðið skipað leikmönnum 19 ára og yngri vann Litháen í morgun í öðrum leik sínum á EM sem fram fer í Svartfjallalandi. Bæði lið voru án stiga fyrir leikinn í morgun. Það var Litháen sem byrjaði leikinn betur og komst þremur mörkum yfir um miðbik fyrri hálfleik 9-6. Íslenska liðið átti hinsvegar frábæran lokakafla í fyrri hálfleik og náði 8-1 kafla og breytti stöðunni í 14-10 sér í vil. Staðan í hálfleik var 14-11 fyrir Íslandi. Jafnfræði var með liðunum í upphafi seinni hálfleik en síðan stigu íslensku stelpurnar á bensíngjöfina og komust mest níu mörkum yfir 29-20. Litháen bitu aðeins frá sér undir lok leiksins en sigur íslenska liðsins var aldrei í hættu og lokatölur 31-27 og fyrsti sigur Íslands á EM því staðreynd. Næsti leikur Íslands á mótinu verður gegn heimakonum í Svartfjallalandi á laugardaginn klukkan 15:00. Svartfjallaland mætir Danmörku í dag klukkan 15:00 en bæði lið unnu leikina sína í gær. Rætt verður við Ágúst Þór Jóhannsson þjálfara liðsins hér á Handkastinu síðar í dag. Mörk Íslands: Ásthildur Þórhallsdóttir 6, Dagmar Guðrún Pálsdóttir 6, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 5, Guðrún Hekla Traustadóttir 4, Alexandra Ósk Viktorsdóttir 3, Ásrún Inga Arnarsdóttir 3, Arna Karítas Eiríksdóttir 2, Guðmunda Auður Guðjónsdóttir 1, Ágústa Rún Jónasdóttir 1. Varin skot: Ingunn María Brynjarsdóttir 6, 27,2% - Elísabet Millý Elíasardóttir 2, 15,3%.
(Tölfræðin er fengin af Handbolta.is)
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.