Geir Guðmundsson (Brynjólfur Jónsson)
Hægri skyttan, Geir Guðmundsson hefur ákveðið að leggja handboltaskóna á hilluna og telur afar ólíklegt að hann spili handbolta á nýjan leik. Þetta staðfesti hann í samtali við Handkastið. Geir sem er uppalinn hjá Þór lék sína fyrstu meistaraflokksleiki með Akureyri áður en hann gekk í raðir Vals þar sem hann varð bikarmeistari tímabilið 2015/2016. Geir gekk í raðir Hauka fyrir tímabilið 2020/2021 frá franska liðinu Cesson-Rennes. ,,Síðasta eitt og hálft árið hefur verið frekar þungt meiðslalega séð. Ég er búinn að togna ítrekað, miklu meira en í gegnum tíðina. Svo tekur þetta svakalegan tíma, ég er búinn að vera í meistaraflokki í 17 ár sem er meirihluti ævinnar þannig mér fannst orðið tímabært að segja þetta gott," sagði Geir Guðmundsson í samtali við Handkastið aðspurður hver ástæðan sé að hann ákvað að leggja skóna á hilluna nú, 32 ára að aldri. Geir telur það ansi ólíklegt að honum snúist hugur og snúi aftur á handboltavöllinn. ,,Það hefur í það minnsta ekkert kitlað síðan ég tók þessa ákvörðun. Það eru nokkur lið búin að heyra í mér en engum hefur orðið kápan úr því klæðinu." ,,Bikarmeistaratitillinn með Val var frábær, svo voru mörg falleg móment í Frakklandi. Eitt súrsætt var þegar við unnum Proligue eftir að hafa fallið árið áður en við náðum ekkert að fagna því vegna þess að þá var Covid komið á fullt skrið og allir í einangrun heima hjá sér," sagði Geir aðspurður út í hápunkta ferilsins. ,,Ég gleymi því þó seint þegar ég hausaði Theirry Omeyer í fyrsta æfingaleiknum mínum með Cesson-Rennes. Það var síðan ágætis tilfinning fyrir egó-ið þegar ég skaut fyrir Dainis Kristopanis á æfingamóti í Hvíta-Rússlandi. Það var fyrsta undirbúningstímabilið mitt í atvinnumennsku og enginn annar en Arpad Sterbik í markinu," sagði Geir þegar hann rifjar upp eftirminnilegustu augnablikin á ferlinum. En eftirminnilegustu augnablikin voru þó ekki alltaf einungis jákvæð því Geir rifjar upp þegar hann lék Daniel Narcisse finta sig upp úr skónum. ,,Ég man þegar Daniel Narcisse tók signature fintuna sína á mig og pakkaði mér saman, það var líka í fyrsta leik í deild. Ég vissi nákvæmlega hvað hann var að fara að gera þar sem þetta var uppáhalds leikmaðurinn minn frá því ég var unglingur en ég átti samt ekki möguleika í að verjast fintunni."Náðu ekkert að fagna vegna Covid
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.