Ágúst Jóhannsson (EHF)
U19 ára kvennalandslið Íslands mætir Svartfjallalandi í lokaleik sínum í riðlakeppni EM sem fram fer í Svartfjallalandi þessa dagana. Bæði lið eru með tvö stig eftir tvær umferðir og er því um að ræða úrslitaleik um hvort liðið fari áfram í milliriðil. Jafntefli dugar Svartfellingum til að fara áfram. Handkastið heyrði í Ágústi Jóhannssyni þjálfara liðsins í morgunsárið og spurði hann út í leikinn sem framundan er. Leikurinn hefst klukkan 15:00. ,,Undirbúningurinn fyrir leikinn gegn Svartfjallalandi í dag hefur gengið ágætlega. Við funduðum vel í gær og tókum rólega æfingu í keppnishöllinni í gærkvöldi," sagði Ágúst sem segir Svartfjallaland vera með gott lið og vel mannaðar. ,,Þær eru með líkamlega sterka leikmenn og hávaxnar. Þær spila með rétthenta leikmenn hægra megin og með mjög góða skyttu vinstra megin og flinkan miðjumann sem er tæknilega mjög góð og leitar mjög mikið inn á línu." ,,Þær fara mikið í 7 á 6 og við þurfum að vera tilbúnar fyrir það. Það er klárt mál að við erum að fara í mjög erfiðan leik. Við þurfum að ná alvöru frammistöðu til að ná eitthvað útúr þessum leik," sagði Ágúst sem leggur mikla áherslu á að varnarleikurinn verði í lagi. ,,Við þurfum að vera vel undirbúnar varnarlega, bæði með 6-0 og 5-1 vörnina okkar," sagði Ágúst og bætti við að andinn í hópnum væri góður og stelpurnar væru vel gíraðar í verkefnið sem framundan væri. ,,Vonandi hittum við á góðan dag, í dag," sagði Ágúst að lokum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.