U19 (Jóhann Ingi Guðmundsson)
Íslenska kvennalandsliðið skipað leikmönnum 19 ára og yngri mætti heimakonum í Svartfjallalandi í hreinum úrslitaleik í riðlinum um hvort liðið færi áfram. Bæði lið voru með 2 stig fyrir leik en Svartfellingum dugði jafntefli til að komast áfram. Mikið jafnræði var með liðunum í byrjun leiks en voru Svartfellingar alltaf skrefinu á undan. Ísland komst í 9-10 en þá skildu leiðir og Svartfellingar breyttu stöðunni í 15-11. Íslensku stelpurnar reyndu að klóra í bakkann en staðan var 19-16 í hálfleik, Svartfellingum í vil. Íslenska liðið náði ekki að minnka muninn í upphafi seinni hálfleiks heldur voru það Svartfellingar sem bættu í forskotið og varð munurinn mestur 8 mörk í stöðunni 27-19 þegar um 10 mínútur voru búnar. Íslenska liðið gafst ekki upp og minnkaði muninn í 27-22 en nær komust þær ekki og lokatölur voru 36-31. Þessi úrslit þýða það að íslenska landsliðið kemst ekki í efra umspilið og mun því leika um sæti 13-24 á næstu dögum. Mörk Íslands: Arna Karítas Eiríksdóttir 7/1, Guðrún Hekla Traustadóttir 6, Ásthildur Þórhallsdóttir 5, Ásrún Inga Arnarsdóttir 4, Sara Lind Fróðadóttir 4, Guðmunda Auður Guðjónsdóttir 2, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 1, Alexnadra Óska Viktorsdóttir 1, Ágústa Rún Jónasdóttir 1. Varin skot: Ingunn María Brynjarsdóttir 8, 2,8% - Elísabet Millý Elíasardóttir 1, 10%. (Tölfræðin fengin af handbolti.is) Rætt verður við Ágúst Þór Jóhannsson þjálfara liðsins hér á Handkastinu síðar í dag.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.