Jason sleit krossband á landsliðsæfingu
(ÍBV)

Jason Stefánsson (ÍBV)

Hinn ungi og þrælefnilegi leikmaður ÍBV, Jason Stefánsson varð fyrir því óláni að slíta fremra krossband á æfingu með U19 ára landsliðinu í síðasta mánuði. Þetta staðfesti Jason í samtali við Handkastið.

,,Þetta gerðist á æfingu þar sem ég var í hraðaupphlaupi. Ég lenti eitthvað skringilega á hælnum og missti hnéð inn á við og fann smell," sagði Jason er hann lýsti atvikinu í samtali við Handkastið. Jason var á æfingu með U19 ára landsliðinu sem þá var að undirbúa sig fyrir Opna Evrópumótið sem fram fór í Gautaborg.

,,Það fylgdi þessu samt enginn sársauki þannig lagað þannig ég hélt að þetta væri kannski ekki svona alvarlegt. Ég fór síðan að hitta Örnólf lækni og síðan í myndatöku þar sem kom í ljós að ég er með slitið fremra krossband," sagði Jason sem segir að stefnan sé að fara í aðgerð í byrjun ágúst.

Það er því ljóst að Jason leikur ekki með U19 ára landsliðinu á HM í Egyptalandi sem framundan er og missir einnig af næsta tímabili með ÍBV í Olís-deildinni.

Jason stimplaði sig inn í lið ÍBV á síðustu leiktíð en hann lék stórt hlutverk varnarlega hjá liðinu. Nú tekur við aðgerð og síðan endurhæfing og gert er ráð fyrir því að hann verði klár í slaginn fyrir tímabilið 2026/2027. Jason skrifaði í byrjun maí undir þriggja ára samning við sitt uppeldisfélag og er því samningsbundinn ÍBV til ársins 2028.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top