U19 (Jóhann Ingi Guðmundsson)
Íslenska U19 ára kvennalandsliðið heldur leik áfram á EM í Svartfjallalandi í fyrramálið þegar það mætir liði Póllands klukkan 8:00 á staðartíma, eða 10:00 á íslenskum tíma. Eftir tap gegn Svartfjallalandi í gær er ljóst að stelpurnar leika um 13.-24. sætið á mótinu en 16 bestu þjóðirnar á EM vinna sér inn þátttökurétt á HM á næsta ári. ,,Dagurinn í dag hefur verið góður. Við hittumst í hádeginu og gerðum upp leikinn gegn Svartfjallalandi frá því í gær. Við fórum bæði yfir varnarleikinn okkar sem við þurfum að reyna að bæta og fórum yfir sóknarleikinn sem var gríðarlega góður í gær, fjölbreyttur og margar að leggja í púkkinn. Við gerðum leikinn upp og síðan fengu stelpurnar frjálsan dag í dag. Þær fóru bara að gera það sem þær vildu, sumar fóru að hitta fjölskyldumeðlimi og aðrar höfðu það rólegt," sagði Ágúst Jóhannsson þjálfari liðsins í samtali við Handkastið sem segir að liðið sé nú farið að undirbúa sig fyrir leikinn gegn Pólverjum á morgun. Handkastið rétt náði í Ágúst áður en hann fór á fund með liðinu þar sem farið var yfir leikstíl Pólverja. ,,Pólska liðið er feikilega öflugt. Þær eru gríðarlega vel mannaðar, með sterkar skyttur og spila sterka 6-0 vörn. Við þurfum að ná í alvöru frammistöðu til að stríða þeim og veita þeim alvöru keppni. Það er markmiðið okkar. Við förum vel yfir þær í kvöld og notum kvöldið til að undirbúa okkur og slaka á. Leikurinn er snemma á morgun, við þurfum að vakna snemma og mæta tilbúnar í verkefnið," sagði Ágúst sem segir stöðuna á hópnum vera góða. ,,Það eru allar tilbúnar og ferskar og staðráðnar í að ná í góða frammistöðu gegn Pólverjum."
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.