U19 (Jóhann Ingi Guðmundsson)
Íslenska kvennalandsliðið skipað leikmönnum 19 ára og yngri tapaði gegn Póllandi á EM í Svartfjallalandi í hádeginu í dag með fimm mörkum 26-21. Ísland lenti strax 6-1 undir í byrjun leiks og var að elta allan leikinn. Ágúst Jóhannsson þjálfari liðsins segir þetta var mjög svekkjandi tap gegn sterku liði. ,,Pólland er með massíft lið með öflugar skyttur og þær náðu að keyra vel á okkur. Þær eru góðar maður á mann og við lendum í því að fá sex brottvísanir á meðan þær fá enga. Byrjunin var erfið og við erum að elta meira og minna allan leikinn." Ágúst segist hafa verið mjög ánægður með varnarleikinn í seinni hálfleiknum og markvarslan hafi heilt yfir verið fín allan leikinn. ,,Ég var mjög ánægður með 5-1 vörnina í seinni hálfleik. Við spiluðum hana gríðarlega vel allan seinni hálfleikinn. Við hefðum mátt refsa þeim meira með hraðaupphlaupum en heilt yfir var varnarleikurinn fínn í leiknum og markvarslan líka," sagði Ágúst. Framundan er leikur gegn Norður-Makedóníu á morgun en sigur þar heldur markmiðum liðsins á lífi en stefnan var sett á að ná topp 16 sem veitir þeim þátttkurétt á HM á næsta ári. ,,Í sókninni vorum við að tapa boltanum of mikið og það er dýrt á móti svona sterku liði eins og Póllandi. Sóknarleikurinn hefur verið góður heilt yfir í mótinu. Við stigum eitt skref til baka í sóknarleiknum í dag en við ætlum stefna á að undirbúa okkur vel fyrir leikinn gegn Norður-Makedóníu á morgun og þá er ég viss um að við náum góðum úrslitum," sagði Ágúst Jóhannsson að lokum í samtali við Handkastið. Ef Ísland vinnur þann leik eiga þær ennþá möguleika á að ná einu af sætinum frá 13 til 16. 16 efstu sætin vinna sér inn keppnisrétt á HM 20 ára landsliða á næsta ári. Það er því til mikils að keppa hjá stelpunum næstu daga.Stigum eitt skref til baka í dag
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.