Stelpurnar töpuðu í dag. (Jóhann Ingi Guðmundsson)
Íslenska kvennalandsliðið skipað leikmönnum 19 ára og yngri tapaði gegn Póllandi á EM í Svartfjallalandi í hádeginu í dag með fimm mörkum 26-21. Var leikurinn einn af tveimur leikjum liðsins í svokölluðum milliriðli í keppni um 13. - 24. sæti á mótinu. Bæði lið voru með tvö stig fyrir leikinn. Hræðileg byrjun stelpnanna í leiknum varð þeim að falli því pólska liðið komst strax fimm mörkum yfir, 6-1. Pólska liðið leiddi allan fyrri hálfleikinn með 5-6 mörkum og komst mest sjö mörkum yfir 15-7. Staðan í hálfleik var 15-8. Frammistaðan í seinni hálfleiknum var töluvert betri hjá stelpunum sem náðu þó aldrei að minnka muninn í minna en fjögur mörk í stöðunni 22-18. Þegar upp var staðið munaði fimm mörkum á liðunum, 26-21. Næsti leikur stelpnanna á mótinu fer fram á morgun þegar liðið mætir Norður-Makedóníu klukkan 12:30 á íslenskum tíma.. Norður-Makedónía tapaði gegn Pólverjum í riðlakeppninni 28-18 og hafa tapað öllum leikjum sínum á mótinu með 10 mörkum eða meira. Ef Ísland vinnur þann leik eiga þær ennþá möguleika á að ná einu af sætinum frá 13 til 16. 16 efstu sætin vinna sér inn keppnisrétt á HM 20 ára landsliða á næsta ári. Það er því til mikils að keppa hjá stelpunum næstu daga. Tekið verður viðtal við Ágúst Jóhannsson þjálfara íslenska liðsins síðar í dag þar sem farið verður yfir það sem fór úrskeiðis hjá stelpunum. Tölfræði Íslands í leiknum: Varin skot: Elísabet Millý Elíasardóttir 7, 25% - Ingunn María Brynjarsdóttir 3, 37,5%.
Mörk Íslands: Ásrún Inga Arnarsdóttir 5, Dagmar Guðrún Pálsdóttir 4, Arna Karítas Eiríksdóttir 3/2, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 3, Emelía Ósk Aðalsteinsdóttir 2, Gyða Kristín Ásgeirsdóttir 1, Ásthildur Þórhallsdóttir 1, Sara Lind Fróðadóttir 1, Hulda Hrönn Bragadóttir 1.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.