Eyrún Ósk Hjartardóttir ((Víkingur)
Eyrún Ósk Hjartardóttir hefur skrifað undir samning við Víking og leikur því með liðinu á komandi tímabili í Grill66-deildinni. Eyrún kemur til Víkings frá Fjölni. Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag. ,,Eyrún Ósk er öflugur vinstri hornamaður sem styrkir hópinn verulega með miklum hraða, áræðni og óbilandi baráttuvilja," segir í tilkynningunni frá Víking. ,,Eyrún hefur verið áberandi í liði Fjölnis síðustu ár og sýnt að hún er leikmaður sem leggur allt í verkefnið, bæði sóknarlega og varnarlega. Með komu hennar eykst breidd og gæði liðsins fyrir komandi átök í Grill 66 deildinni og bikarkeppninni," segir ennfremur í tilkynningunni frá félaginu. Eyrún segir það frábært að ganga til liðs við félagið. ,,Mér líst mjög vel á umhverfið og þann metnað sem ríkir innan félagsins. Ég hlakka mikið til að taka næstu skref í minni þróun sem leikmaður og vonast til að geta lagt mikið af mörkum í verkefnunum fram undan." Sebastian Alexandersson, þjálfari meistaraflokks kvenna, hafði þetta að segja við komu Eyrúnar til liðsins. ,,Eyrún Ósk kemur inn með gríðarlegan kraft og hungur. Hún er hraður og áræðinn hornamaður sem mun nýtast okkur mjög vel í hraðaupphlaupum og í kraftmiklum leikstíl okkar. Ég hlakka til að vinna með henni og tel hana passa vel inn í menningu og markmið liðsins." Aðalsteinn Eyjólfsson, yfirmaður handknattleiksmála hjá Víkingi, bætti við: ,,Við erum mjög ánægð með að fá Eyrúnu til okkar. Hún hefur sýnt að hún er tilbúin að leggja hart að sér og við erum sannfærð um að hún eigi eftir að blómstra í Víking. Þessi liðsstyrking undirstrikar metnað okkar í að byggja upp sterkan og samkeppnishæfan hóp." Komnar:
Hildur Guðjónsdóttir frá FH
Þyri Erla Sigurðardóttir frá Fjölni
Sara Björg Davíðsdóttir frá FH
Eyrún Ósk Hjartardóttir frá Fjölni
Farnar:
Signý Pála Pálsdóttir í Fjölni
Ída Bjarklind Magnúsdóttir í Selfoss
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.