Gríðarlega mikilvægt fyrir stelpurnar og íslenskan handbolta
(JIG)

U19 ((JIG)

Íslenska kvennalandsliðið skipað leikmönnum 19 ára og yngri vann 22ja marka sigur á Norður-Makedóníu á EM sem fram fer í Svartfjallalandi. Með sigrinum tryggðu stelpurnar sér þátttökurétt á HM á næsta ári. Leiknum lauk 48-26 fyrir Íslandi.

,,Ég er gríðarlega sáttur og stoltur með okkar leik í dag. Þessi leikur var frábærlega útfærður, 5-1 vörnin okkar var gríðarlga öflug í 60 mínútur og við náðum að vinna marga bolta og keyra hraðarupphlaupin á fullu gasi allan leikinn," sagði kampakátur Ágúst Jóhannsson þjálfari liðsins í samtali við Handkastið eftir sigurinn.

,,Sóknarleikurinn var sömuleiðis vel útfærður. Norður-Makedónía spilaði framliggjandi vörn allan tímann og við náðum að útfæra það hvað eftir annað og vorum að skjóta vel á markið," sagði Ágúst sem segist hafa tilkynnt stelpunum það í hálfleik að liðið þyrfti að vinna með 18 mörkum til að tryggja sér þátttökurétt á HM á næsta ári. Ísland var 14 mörkum yfir í hálfleik.

Stóra markmiðinu náð

,,Við í þjálfarateyminu, vissum fyrir leikinn að við þyrftum að vinna leikinn með 18 mörkum til að ná topp 16 í mótinu sem gefur okkur þátttökurétt á HM á næsta ári sem gefur tækifæri til að lengja landsliðstímann fyrir þennan árgang, 2006 og 2007 sem er gríðarlega mikilvægt fyrir bæði stelpurnar og framtíðina í íslenskum handbolta. Þegar við vorum komnar í góða stöðu í hálfleik þá ræddum við þetta fyrst við leikmennina og létum þær vita hvað þyrfti til. Ég er ánægður hvernig þær tóku því og héldu haus allan leikinn og kláruðu verkefnið faglega. Við mjötluðum þetta hægt og þétt."

,,Stóra markmiðið fyrir mótið var að lengja unglingalandsliðstímann hjá þessum stelpum um eitt ár og komast á eitt stórmót í viðbót og tryggja okkur það á eigin verðleikum og það gerðu stelpurnar með þessum stórssigri. Við erum gríðarlega ánægð með það," sagði Ágúst sem segir stelpurnar hafa sýnt frábæran leik og góða liðsheild.

,,Við fögnum þessu í dag og í kvöld og síðan byrjuðum við að undirbúa okkur í fyrramálið fyrir næsta verkefni," sagði Ágúst en liðið bíður enn eftir að vita hverjir næstu mótherjar þeirra verða á mótinu.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top