Átta þjálfarar sem gætu tekið við Aftureldingu
(Raggi Óla)

Kvennalið Aftureldingar er þjálfaralaust. ((Raggi Óla)

Kvennaliði Aftureldingar vantar þjálfara eftir að Jón Brynjar Björnsson hætti óvænt með liðið á dögunum vegna búferlaflutninga erlendis.

Hver ætli taki við liðinu?

Handkastið ákvað að búa til lista af nöfnum sem gætu verið mögulegir kandídatar að taka við liðinu. Það skal þó tekið fram að þetta er einungis til gamans gert og eingöngu laufléttar bollaleggingar.

Örn Ingi Bjarkason
Liggur beinast við að hann taki við liðinu hafi hann áhuga á því. Var aðstoðarþjálfari liðsins í vetur. Þjálfaði 3. flokk karla í Víking fyrir nokkrum árum við góðan orðstír. Var frábær leikstjórnandi á sínum tíma og lék með UMFA, FH og í Svíþjóð.

Rakel Dögg Bragadóttir
Hætti með kvennalið Fram eftir síðastliðið keppnistímabil eftir að hafa þjálfað liðið með Arnari Péturssyni. Fyrrum A-landsliðs fyrirliði og spilaði erlendis í nokkur ár. Vill hún hella sér af fullum þunga aftur í meistaraflokksþjálfun eða vill hún taka sér pásu?

Guðmundur Helgi Pálsson
Þjálfaði liðið í nokkur ár og gerði vel. Var mjög útsjónarsamur leikstjórnandi á sínum tíma. Gæti hann komið aftur í Mosfellsbæinn þar sem hann þekkir hverja einustu fjöl?

Bjarki Sigurðsson
Spilaði fleiri hundruð A-landsleiki á sínum tíma. Var lykilmaður í liði Aftureldingar sem urðu Íslands-og Bikarmeistarar 1999. Þjálfaði svo karlaliðið í nokkur ár. Hefur lengi verið búsettur í Mosfellsbænum. Hefur verið að þjálfa yngri flokka hjá Aftureldingu í fjölmörg ár. Gætu feðgarnir Bjarki og Örn Ingi jafnvel þjálfað liðið saman?

Björn Ingi Jónsson
Ungur og efnilegur þjálfari sem er alinn upp í KR þar sem hann byrjaði að þjálfa. Færði sig síðan yfir í Val og lærði af mörgum góðum þjálfurum. Aðstoðaði Árna Stefán Guðjónsson með meistaraflokk kvenna í FH síðastliðin tvö ár en hætti því í vor. Gæti mögulega þó verið búinn að ráða sig í yngri flokka hjá FH.

Maksim Akbachev
Hefur lengi þjálfað yngri flokka, verið yfirþjálfari, aðstoðarþjálfari í efstu deild karla og þjálfað yngri landslið hjá HSÍ. Þjálfaði einnig um skeið í Barein. Gríðarlega fær og skipulagður þjálfari. Hefur ekki langt að sækja þjálfarahæfileikana en Boris Bjarni Akbachev heitinn var afi hans. Að öllum líkindum mun minni líkur heldur en meiri að hann sé klár í bátana en gæti fengið símtalið.

Andrés Gunnlaugsson
Gamall refur sem er búinn að vera lengi í bransanum og marga fjöruna sopið. Þjálfaði m.a kvennalið Fram, Hauka, Fjölni og Víking á sínum tíma. Fór til að mynda óvænt upp í Olís deild kvenna með Fjölnis liðið fyrir þónokkrum árum. Þjálfaði karlalið ÍR líka á sínum tíma. Þjálfaði kvennalið Víkings fyrir 2 árum með Jóni Brynjari og þjálfaði svo lið Berserkja í vetur.

Kristinn Björgúlfsson
Gæti Kiddi fengið símtalið? Uppalinn í ÍR og spilaði m.a með ÍR og Gróttu/KR í meistaraflokki. Spilaði svo lengi vel erlendis. Hefur bæði þjálfað meistaraflokk kvenna og meistaraflokk karla hjá ÍR. Var svo um tíma í þjálfarateymi mfl karla hjá Þór Akureyri. Einnig hefur hann verið að leikgreina fyrir félög hér heima og erlendis.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top