U19 (Jóhann Ingi Guðmundsson)
U19 ára landslið Íslands mátti þola fimm marka tap gegn Serbíu í leik dagsins á EM í Svartfjallalandi. ,,Þetta var svekkjandi tap í dag. Serbar með mjög öflugt lið og hafa verið sterkar á þessu móti og unnið góða sigra en mér fannst við sóknarlega vera að spila mjög vel og opna þær hvað eftir annað. Við vorum sjálfum okkur verstar í nýtingu á dauðafærum og vítaköstum og það er dýrt gegn svona öflugu liði," sagði Ágúst Jóhannsson þjálfari liðsins í samtali við Handkastið. ,,Við spiluðum 5-1 vörn nánast allan tímann og mér fannst á stórum köflum hún vera góð. Við vorum kannski að opna okkur full auðveldlega í hornunum þar sem þær voru að fá full stór færi þar en eins og ég segi, varnarleikurinn hefði getað verið aðeins þéttari og markvarslan á sama skapi mátt vera örlítið meiri. Þetta helst allt saman í hendur og á sama tíma vorum við ekki að fá auðveld mörk úr hraðarupphlaupum." Ágúst segir að það verði að halda því til haga að um gríðarlega sterkt lið hafi verið um að ræða og því var búist við erfiðum leik í dag. ,,Við erum að spila við gríðarlega öflugt lið og erum í hörkuleik við þær meira og minna allan tímann en við vorum sjálfum okkur verst á köflum." Ágúst var ósáttur með færanýtinguna í leiknum og þá sérstaklega á köflum þar sem liðið gat nálgast Serbana enn meir. ,,Við eigum Noreg á morgun í hádeginu og þær eru öflugar eins og öll þessi lið sem eru í efri hlutanum. Við þurfum að nota daginn í dag til að undirbúa okkur eins vel og við getum og hlaða batteríin." ,,Við þurfum að mæta af miklum krafti í þann leik. Stelpurnar eru allar heilar og eru staðráðnar í að ná í sigur í leiknum á morgun," sagði Ágúst Jóhannsson þjálfari liðsins en Ísland leikur gegn Noregi klukkan 10:00 í fyrramálið á íslenskum tíma.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.