Okkar lélegasta frammistaða á mótinu
(JIG)

U19 (JIG)

Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari U19 ára kvennalandsliðs Íslands var svekktur eftir tíu marka tap liðsins gegn Noregi fyrr í dag á EM í Svartfjallalandi. Eftir jafnan fyrri hálfleik hrundi leikur íslenska liðsins í seinni hálfleik og uppskar norska liðið eins og fyrr segir, tíu marka sigur, 34-24.

Þar er með ljóst að íslenska liðið leikur um 15.sætið á mótinu og mætir þar annað hvort Tyrklandi eða Svíþjóð.

,,Þetta var óþarflega stórt tap af mínu mati. Fyrri hálfleikurinn var mjög góður bæði varnar og sóknarlega," sagði Ágúst.

,,Við förum illa með alltof mörg færi í fyrri hálfleik og við hefðum auðveldlega getað verið nokkrum mörkum yfir í hálfleik en vorum þess í stað einu marki undir. Við jöfnum metin í upphafi seinni hálfleiks og klaufar að komast ekki yfir en það orsakast af lélegum ákvörðunum sóknarlega, töpuðum boltum og erum að velja léleg færi. Noregur er með besta liðið í heiminum í þessum árgangi að refsa og þær refsuðu okkur illilega með hraðarupphlaupum."

,,Við komum til baka þegar lítið var eftir og minnkum muninn niður í fjögur mörk en vorum full værukærar á lokakaflanum og óþarflega stórt tap að mínu mati."

Nú tekur við frí hjá liðinu en leikur síðan lokaleik sinn á EM á sunnudaginn eins og fyrr segir, annað hvort gegn Tyrklandi eða Svíþjóð. Ágúst segir mikilvægt að enda mótið vel.

,,Við viljum klára þetta mót með sóma. Ég hef verið ánægður með margt í leik liðsins en þetta var sennilega okkar lélegasta frammistaða á mótinu. Við höfum spilað við mjög sterkar þjóðir og margt sem hefur verið mjög gott en núna þurfum við að einbeita okkur að því að klára þetta mót á góðum nótum," sagði Ágúst Jóhannsson þjálfari liðsins að lokum í samtali við Handkastið.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top