Blær Hinriksson (Leipzig)
Blær Hinriksson var kynntur sem nýr leikmaður þýska úrvalsdeildarfélagsins, Leipzig í gær. Blær skrifaði undir eins árs samning við þýska liðið og gengur í raðir þess frá Aftureldingu er hann hefur leikið síðustu fimm ár. Blær segir það alltaf hafa verið markmið hans að spila í þýsku úrvalsdeildinni. Hann segir því tilfinninguna vera góða að þetta sé loks í höfn. ,,Ég hef æft og hagað mér á þann hátt síðustu ár að einn daginn myndi ég spila í Bundesligunni. Þetta er eitt markmið af mörgum, þannig vinnan er rétt að byrja. Ég vissi alltaf að ég myndi spila í Þýskalandi á næstu árum," sagði Blær sem er á 24. aldursári og hefur beðið lengi eftir tækifærinu að komast út í atvinnumennsku. ,,Ég hef fengið nokkur boð um að spila erlendis síðustu ár, verið þolinmóður og ekki viljað fara út bara til að fara út," sagði Blær. Handkastið vill grípa þennan bolta og lofti og benda á að aðrir leikmenn í Olís-deild karla mættu taka Blæ sér til fyrirmyndar, en höldum áfram: ,,Fyrsta lagi var markmiðið alltaf að vinna Íslandsmeistaratitil með UMFA og fara svo út. Það gekk því miður ekki en ég vissi að ég var búinn að gefa allt til félagsins. Þannig það var tímabært að verða atvinnumaður og auðvitað horfði ég einungis til Þýskalands þar sem það var markmiðið," sagði Blær. Viðræður hans við Leipzig hafa staðið yfir í langan tíma. ,,Ég heyrði fyrst frá Leipzig fyrir þó nokkrum mörgum vikum og áttum við þá góða fundi. Það dróst á langinn vegna þjálfara mála en ég vissi af miklum áhuga að þeirra hálfu," sagði Blær en Rúnari Sigtryggssyni var sagt upp störfum hjá félaginu í síðasta mánuði. Raul Alonso tók síðan við liðinu í síðustu viku og þá fór boltinn aftur að rúlla. Blær segir að fleiri lið í þýsku deildinni hafi verið í myndinni og áhuginn hafi orðið meiri þegar leið á sumarið. Blær er mættur til Þýskalands og byrjaður að æfa með liðinu. Hann segist renna blint í sjóinn hvað varðar hlutverk sitt í liðinu en með tilkomu nýs þjálfara hafa hlutverk leikmanna í liðinu eitthvað breyst frá því í fyrra. ,,Það eru margir nýir leikmenn og nýr þjálfari. Auðvitað þarf ég að sýna mig og sanna, líkt og aðrir leikmenn. Ég er óskrifað blað og það er mitt að skrifa söguna," sagði Blær og vitnar þar í John Locke. ,,Leipzig er búið að vera á uppleið síðustu ár, þrátt fyrir babb í bátinn á síðasta tímabili. Fyrstu kynni við félagið eru búin að vera virkilega góð. Góðar móttökur, aðstaðan í toppklassa og get ekki beðið að takast á við verkefni vetrarins," sagði Blær sem kveður nú Mosfellsbæinn eftir fimm ára veru þar. Er hann orðinn meiri Aftureldingarmaður en HK-ingur? ,,Ég ber miklar taugar til Aftureldingar og mun alltaf gera það. Er ævinlega þakklátur UMFA. En oft þarf maður að minna sig á hvaðan ég kem og horfa í ræturnar. Þar er HK og Kópavogur sem mótaði mig að miklu leyti," sagði Blær að lokum í samtali við Handkastið.Vildi ekki fara bara út til að fara út
Er óskrifað blað