Sannfærður um að þær geti gert góða hluti á HM
(JIG)

U19 (JIG)

Ágúst Jóhannsson þjálfari U19 ára kvennalandsliðs Íslands var að vonum himinlifandi eftir 12 marka sigur liðsins í lokaleik EM gegn Tyrklandi fyrr í dag. Var þetta leikur um 15.sætið á mótinu. Stelpurnar voru yfir allan leikinn og náðu mest þrettan marka forystu. Leiknum lauk 36-24.

,,Frábær frammistaða á hjá liðinu í dag og ég er virkilega ánægður með stelpurnar í dag, bæði með spilamennskuna og viðhorfið, hvernig þær komu inn í þennan leik. Varnarleikurinn var gríðarlega sterkur, 5-1 vörnin gekk mjög vel upp sem gerði það að verkum að við unnum marga bolta og náðum að keyra mikið upp, eins náðum við að þvinga þær í erfiðar sendingar og þær gerðu marga tæknifeila," sagði Ágúst Jóhannsson þjálfari liðsins sem var hátt uppi eftir þennan fræknasigur. Ágúst er eins og margir aðrir, mikill keppnismaður og fer í alla leiki til að vinna.

,,Sóknarlega voru margar að leggja í púkkið þar og í raunni opnuðum við þær hvað eftir annað. Ég hefði viljað vera meira yfir í hálfleik en við vorum að fara mjög illa með upplögð marktækifæri og það er dýrt og auðvitað bara stór partur af handbolta í dag að geta nýtt færin sín betur. En heilt yfir var þetta sannfærandi sigur og góð frammistaða í dag. Það er mjög gott að klára mótið á þennan hátt."

Ágúst er ánægður með mótið heilt yfir. Hann segir að það sé einn leikur sem sitji í honum en það var stórt tap gegn Noregi.

,,Annars höfum við verið í hörku leikjum gegn góðum andstæðingum. Þar sem við fórum í efri hlutann þá voru andstæðingarnir sterkir. Við vinnum þrjá góða sigra og ég er sannfærður um það að ef það er haldið vel utan um þessar stelpur næsta árið, það verði lagt upp gott plan fyrir þær og þær fá góða æfingaleiki og landsliðsgluggarnir verða vel nýttir áfram næsta árið þá er ég sannfærður um að þær geti gert góða hluti á HM næsta sumar."

,,Aðal markmiðið var að tryggja liðið inn á HM á næsta ári og lengja þar með yngri landsliðsferil stelpnanna. Það tókst og það er það sem við erum gríðarlega ánægð með. Nú þarf bara að nýta tímann vel, æfa vel og nota landsliðsgluggana vel," sagði Ágúst Jóhannsson að lokum í samtali við Handkastið og þakkaði fyrir frábæra og á sama tíma faglega umfjöllun um mótið.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top