Strákarnir kátir eftir sigurinn ((HSÍ)
U17 ára landslið karla vann stórsigur á Spánverjum í fyrsta leik sínum á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar (EYOF) í Skopje, N-Makedóníu, 31-19. Íslenska liðið byrjaði leikinn mjög vel og voru komnir með 6 marka forskot, 8-2 eftir 15 mínútna leik. Spánverjum tókst að vinna sig inn í leikinn og var staðan 12-8 þegar gengið var til búningsherbergja. Fljótt í síðari hálfleik gáfu íslensku strákarnir í og litu aldrei um öxl. Varð svo að þeir unnu stórsigur 31-19. Gunnar Róbertsson var markahæstur í íslenska liðinu með 9 mörk, Freyr Aronsson skoraði 6, Ómar Darri Sigurgeirsson 3, Alex Unnar Hallgrímsson, Anton Frans Sigurðsson, Bjarki Snorrason, Kristófer Tómas Gíslason, Matthías Dagur Þorsteinsson og Patrekur Smári Arnarsson skoruðu 2 mörk hver og Örn Kolur Kjartansson skoraði 1 mark. Í markinu varði Anton Máni Francisco Heldersson 12 skot og Sigmundur Gísli Unnarsson 4 skot. Næsti leikur strákanna er gegn Króatíu á morgun kl. 14:00 (íslenskum tíma). Leikurinn verður sýndur á EHF TV ókeypis en áhorfendur þurfa einungis að stofna aðgang.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.