Stelpurnar fagna sigrinum í gær ásamt Willum Þór Þórssyni, forseta ÍSÍ (HSÍ)
U17 ára landslið kvenna vann rétt í þessu lið Noregs í öðrum leik sínum á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar eftir að hafa verið yfir 13-12 í hálfleik. Stelpurnar fylgdu eftir góðum sigri á heimakonum í N-Makedóníu í gær og í þetta sinn var það Noregur sem stelpurnar lögðu eftir hörkuleik. Íslenska liðið tók fljótt frumkvæði í leiknum en voru einungis einu marki yfir eftir fyrri hálfleik, 13-12. Stelpurnar komu tvíefldar til leiks í síðari hálfleik og voru fljótt komnar 5 mörkum yfir, 14-19. Eftir það litu þær aldrei um öxl og unnu að lokum frábæran 30-25 sigur. Ebba Guðríður Ægisdóttir var markahæst í íslenska liðinu með 7 mörk, Eva Steinsen Jónsdóttir kom næst á eftir með 5 mörk, Vigdís Arna Hjartardóttir, Tinna Ósk Gunnarsdóttir, Laufey Helga Óskarsdóttir og Eva Lind Tyrfingsdóttir skoruðu 3 mörk hver, Roksana Jaros skoraði 2 og Hekla Sóley Halldórsdóttir 1. Danijela Sara B. Björnsdóttir átti stórleik í markinu með 17 bolta varða. Með sigrinum jafna stelpurnar lið Sviss að stigum sem situr í efsta sæti riðilsins með betri markatölu. Á morgun er því hreinn úrslitaleikur um efsta sæti riðilsins en liðið mætir Sviss kl. 16:15 að íslenskum tíma. Þess má geta að Svissneska liðið er gríðarlega sterkt í þessum aldursflokki en þær unnu European Open mótið síðasta sumar.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.