Kevin Möller SG Flensburg-Handewitt ((CHRISTIAN CHARISIUS / dpa Picture-Alliance via AFP)
Það er margt sem bendir til þess að dansi landsliðsmarkvörðurinn, Kevin Möller yfirgefi Flensburg næsta sumar. Hann er á leið inn í sitt níunda tímabil með þýska liðinu SG Flensburg-Handewitt. Samkvæmt þýska fjölmiðlinum SHZ hefur Möller möguleika á að yfirgefa Flensburg strax næsta sumar, ári áður en samningur hans við félagið rennur út, árið 2027. SG Flensburg-Handewitt er að vinna að því að framlengja samninginn með Möller en á sama tíma hefur GOG komið með tilboð sem, að sögn SHZ, höfðar sérstaklega til Møller af fjölskylduástæðum. Møller hefur áður spilað fyrir GOG, bæði í yngri flokkum og með aðalliði félagsins frá 2011 til 2014. Það sem rennur undir stoðir þess að Kevin Möller fari til GOG næsta sumar er að hann hefur þegar ákveðið með fjölskyldu sinni að framtíð hans sé í Svendborg. Eina spurningin er hvenær það verður viðeigandi. Eins vekja ummæli hans um framtíð sína athygli: „Mig langar að framlengja samning minn og enda ferilinn hér í Flensburg. Það er heiður að félagið vilji það,“ sagði Møller við fjölmiðla í upphafi æfinga hjá Flensburg er liðið kom saman eftir sumarfrí. „Það eru fleiri atriði sem þarf að hafa í huga. Þegar maður er 36 ára er alveg eðlilegt að hugsa um að snúa heim, sérstaklega með börn.“ „Ég hlakka til að minnsta kosti eins tímabils í viðbót hér. Ég vil ekki setja félagið í slæma stöðu. Þetta er mitt félag og ég vona að geta tekið ákvörðun eins fljótt og auðið er.“ Hann var lykilmaður þegar Flensburg vann Evrópudeildina á síðasta tímabili og hefur verið það síðustu tímabil. Það yrði því stórt skarð sem forráðamenn Flensburgar þyrftu að fylla í, fari Möller næsta sumar. Holger Glandorf, íþróttastjóri Flensburg, staðfestir að félagið vilji fá skýringar á næstu mánuðum.
„Við settum enga pressu á hann í sumarfríinu til að gefa honum frið, en auðvitað þurfum við að fara fá svör um framtíð hans,“ segir Glandorf.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.