Strákarnir fagna sigrinum ((HSÍ)
U17 ára landslið karla lagði Króata að velli 35-21 í öðrum leik sínum á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Skopje rétt í þessu. Strákarnir tóku strax frumkvæðið í leiknum og voru fljótt komnir 5-2 yfir. Þá tók Króatíska liðið við sér og jafnaði í stöðunni 7-7 og komust um tíma yfir í stöðunni 9-11. Jafnræði var með liðunum út hálfleikinn og var staðan 13-13 þegar gengið var til búningsherbergja. Í seinni hálfleik tóku strákarnir okkar öll völd á vellinum og reyndist Anton Máni markvörður, Króötunum óþægur ljár í þúfu og varði hvert dauðafærið af fætur öðru sem skilaði íslenska liðinu ófáum hraðaupphlaupum. Gunnar Róbertsson var markahæstur með 13 mörk, Anton Frans Sigurðsson kom næstur með 4 mörk, Patrekur Smári Arnarsson, Logi Finnsson, Bjarki Snorrason og Ómar Darri Sigurgeirsson skoruðu 3 mörk hver, Freyr Aronsson og Ragnar Arnórsson skoruðu 2 mörk hver og Örn Kolur Kjartansson og Alex Unnar Hallgrímsson skoruðu sitthvort markið. Anton Máni Francisco Heldersson átti stórleik í markinu eins og áður sagði og var með 17 varin skot og Sigmundur Gísli Unnarsson varði 2. Með sigrunum eru strákarnir komnir í efsta sæti riðilsins en þær mæta heimamönnum í N-Makedóníu á morgun kl. 16:15 að íslenskum tíma.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.