Væri draumur að vinna titil með ÍBV
(ÍBV handbolti)

Daníel Þór Ingason - Sandra Erlingsdóttir ((ÍBV handbolti)

Landsliðskonan Sandra Erlingsdóttir er komin aftur í Olís-deild kvenna eftir fimm ár í atvinnumennsku bæði í Danmörku og í Þýskalandi. Sandra flytur nú heim til Vestmannaeyja og ku ætla leika með liði ÍBV næstu árin en Sandra lék áður með Val áður en hún fór til Danmerkur sumarið 2020.

Sandra gerði þó vissulega samning við ÍBV fyrir tímabilið 2020/2021 en var með klásúlu um að hún gæti farið út í atvinnumennsku sem svo raungerðist. Fimm árum síðar er hún komin heim, með barn og kærasta, Daníel Þór Ingason sem hefur einnig gengið í raðir ÍBV eftir atvinnumennsku í Þýskalandi síðustu ár.

Alltof mikið púsluspil

,,Við vorum mjög hugsi yfir því hvort við vildum koma heim til Íslands, vera áfram í Þýskalandi eða færa okkur eitthvað annað til Skandinavíu. Við vorum þokkalega fljót að við vildum ekki vera áfram í Þýskalandi. Okkur bauðst að vera áfram í þeim liðum sem við vorum í, en það var alltof mikið púsluspil, bæði að spila með lítið barn þar sem við vorum bæði að fara með liðinu degi fyrir leik," sagði Sandra sem segir að síðustu mánuðirnir úti hafi verið virkilega krefjandi þar sem hún keyrði til að mynda í 45 mínútur til og frá æfinga.

,,Maður var rosalega lítið heima og það er í rauninni magnað að við skulum hafa látið þetta tímabil ganga upp. Það hefði aldrei gengið upp nema með sjúklega mikilli hjálp frá fjölskyldum okkar sem voru dugleg að koma og hjálpa okkur."

Eftir að ákvörðun um að vilja ekki vera áfram í Þýskalandi var tekin þá tók við nýr hausverkur. Hvort stefnan ætti að vera tekin til Íslands eða til Skandinavíu.

,,Við fengum tilboð frá félögum í skandinavíu en ekkert það spennandi og launin þar eru heldur ekkert frábær nema hjá allra stærstu félögunum. Okkur fannst það ekki þess virði."

,,Þá var næsta verkefni að ákveða hvort við ætluðum að vera á höfuðborgarsvæðinu eða í Vestmannaeyjum og við vorum opin fyrir báðum möguleikum. Í sameiningu tókum við ákvörðun að fara til Eyja, sem okkur leist mjög vel á," sagði Sandra er þekkir vel til í Vestmanaeyjum.

Danni spenntari en ég að fara til Eyja

,,Ég þekki auðvitað töluvert betur til í Eyjum heldur en Danni, en hann var sjúklega spenntur. Hann var í rauninni spenntari fyrir þessari ákvörðun heldur en ég. Svo er maður kannski að fara inn í aðeins öðruvísi tímabil en maður er vanur síðustu ár. Allt í einu er maður orðin ein af þessum eldri. Það er svo stutt síðan maður fannst maður vera ein af þessu ungu og vera í yngra liðinu í upphitunarfótboltanum."

Sandra segist vera sjúklega spennt fyrir öðruvísi hlutverki hjá ÍBV en hún er vön.

,,Ég tel mig hafa lært mikið síðustu ár erlendis þar sem ég hef verið að spila með reynslu miklum leikmönnum og mismunandi þjálfara. Maður lærir mikið inn á sig og hvernig leikmaður maður er og að standa með sjálfum sér. Ég er mjög spennt að deila þeirri reynslu með yngri stelpunum og spila með vinkonum sínum aftur," sagði Sandra sem segir það vera mjög spennandi að vera koma aftur í Olís-deildina.

Hefði verið þægilegra að fara í Val

,,Ég er mjög spennt að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem er í gangi hér hjá ÍBV. Það hefði verið þægilegt að fara í Val og vita nákvæmlega hvað maður væri að ganga í. Ég hef verið í Val þar sem allt er upp á tíu og ekkert út á Val að setja. Ég átti mjög góðan tíma þar en það er töluvert meira krefjandi verkefni í gangi í Vestmannaeyjum og ég er sjúklega spennt fyrir því og það væri draumur að ná að vinna titil með ÍBV þar sem ég hef náð að gera það með Val áður," sagði Sandra sem segir það einnig vera spennandi að vera koma heima svona ung og eiga ennþá nóg eftir af ferlinum.

,,Planið var að vera lengur úti áður en maður eignaðist barnið en það breytast aðstæður þegar barn kemur í heiminn og báðir foreldarnir að spila handbolta. Maður er að koma heim ennþá með stór markmið og ég er alls ekki södd. Það er líka gaman að koma þannig heim," sagði Sandra að lokum í viðtali við Handkastið.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top