Katla María Magnúsdóttir ((Eyjólfur Garðarsson)
Katla María Magnúsdóttir hefur gengið í raðir danska félagsins, Holstebro sem leikur í dönsku B-deildinni. Þetta staðfesti hún í samtali við Handkastið. Katla María gengur í raðir Holstebro frá uppeldisfélagi sínu Selfossi. Holstebro lenti í 2.sæti dönsku B-deildarinnar á síðustu leiktíð og fór í umspil um sæti í þeirri efstu. Liðið tapaði hinsvegar gegn úrvalsdeildarliði Skanderborg í umspilinu og leikur því í B-deildinni á nýjan leik á komandi tímabili. Handkastið greindi frá því á dögunum að Katla María væri á förum frá Selfossi og stefndi á að spila í Danmörku í vetur en kærasti Kötlu, Jóhannes Berg Andrason gekk í raðir Tvis-Holstebro frá FH í sumar og nú er ljóst að parið leikur saman í Holstebro á næsta tímabili. Katla sem er fædd árið 2001 hefur leikið með Selfossi frá árinu 2021 eftir að hafa leikið með Stjörnunni þar áður í stuttan tíma. Katla skoraði 104 mörk í 23 leikjum fyrir Selfoss í deild og úrslitakeppninni á síðustu leiktíð en Selfoss tapaði í 6-liða úrslitum gegn ÍR í oddaleik. Katla var í íslenska landsliðinu á HM 2023 en meiddist illa á ökkla í leik með Selfossi gegn Stjörnunni í undanúrslitum Powerade-bikarsins í mars 2024 og var lengi frá. Katla María var ekki valinn í síðustu landsliðshópa Arnars Péturssonar í forkeppninni fyrir HM og það verður fróðlegt að sjá hvort þetta skref færi hana nær landsliðshópnum fyrir HM sem fram fer í Þýskalandi og Hollandi síðar á árinu.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.