U17 kvenna ((HSÍ)
U17 ára kvenna landslið Íslands lauk keppni á Ólympíuhátíð æskunnar um helgina með því að vinna Holland með fimm mörkum, 31-26 í leik um 3.sætið á mótinu. Þrír sigrar og tvö töp niðurstaðan hjá stelpunum sem undirbúa sig nú fyrir EM í Svartfjallalandi sem hefst á miðvikudaginn. Díana Guðjónsdóttir þjálfar liðið ásamt Hilmari Guðlaugssyni sem var hinsvegar ekki með liðinu í Norður-Makedóníu á Ólympíuhátíðinni. ,,Þetta var sterkt mót og mikilvægt fyrir okkur að fá þessa leiki við þessar sterku þjóðir til að bera okkur saman við þær og sjá hvar við stöndum. Þetta var töff, mikil hiti á leiðinni í leikina í fullum strætó á vegum mótsins með fullt af íþróttafólki. En þetta var mikið ævintýri sem við öll munum klárlega muna vel eftir. Það var líka gaman fyrir okkur að vera með öðrum íþróttamönnum og þjálfurum frá Íslandi og sjá hvað og hvernig þau eru að vinna hlutina," sagði Díana Guðjónsdóttir í samtali við Handkastið er hún var beðin um að gera upp Ólympíuhátíð æskunnar. Hún var ánægð með liðsheildina og breiddina í hópnum á mótinu. ,,Mér fannst liðsheildin vera góð og margir leikmenn sem eru að koma með eitthvað inn í leikinn. Ég horfi ekki alltaf á markaskorið heldur líka sóknarlega hvað ertu að skapa fyrir aðra og varnarlega hvernig erum við að stoppa andstæðinginn. Það voru margir hlutir góðir en það má alltaf bæta sig. Í öllum þessum leikjum erum við að fá mikið af færum sóknarlega eftir að hafa spilað agað og leita að besta færinu," sagði Díana sem var virkilega ánægð með markvörsluna í mótinu. ,,Það sem stóð upp úr í þessum móti hjá okkur er klárlega markvarslan sem var stöðug í öllum leikjunum okkar." Hún segir margt hægt að gera betur bæði varnar og sóknarlega. ,,Við þurfum að laga aðeins tempóið hjá okkur sóknarlega og fara yfir skotnýtinguna. Við viljum hafa hana betri eins og á móti Þjóðverjunum fórum við með alltof mikið af góðum en færum en jákvætt að leikmenn héldu áfram að taka þau. Varnarlega þurfum við aðeins að slípa til samvinnu á miðju svæðinu og vera duglegri að taka frumkvæði þar á andstæðinginn," sagði Díana sem náði að rúlla vel á hópnum á mótinu en upp komu smávægileg meiðsli og tók hún enga sénsa þar sem aðal fókusinn er að allir leikmennirnir verði klárir þegar EM hefst á miðvikudaginn. Hópurinn er mættur til Svartfjallalands þar sem lokaundirbúningurinn fyrir fyrsta leik gegn Færeyjum fer að hefjast. ,,Það verður gott að fá alla í teyminu hingað þó þau hafi verið að vinna frá Íslandi. En svo má ekki gleyma að það er ómetanlegt að hafa Óskar Bjarna með alla sína reynslu á kantinum að hjálpa okkur, bæði að koma með punkta og aðstoða við klippur af leikjunum," sagði Díana að lokum í samtali við Handkastið.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.