U17 kvenna ((HSÍ)
Evrópumót U17 ára kvenna hefst á morgun eins og við greindum frá fyrr í morgun en keppnin fer fram í Svartfjallalandi. Þar er Ísland ein af 24 þátttökuþjóðum á mótinu. Ísland leikur fyrsta leik sinn á mótinu í fyrramálið gegn Færeyjum klukkan 10:00 á íslenskum tíma. Handkastið heyrði í Díönu Guðjónsdóttur þjálfara liðsins er liðið var nýkomið til Svartfjallalands eftir rúmlega viku dvöl í Norður-Makedóníu þar sem liðið tók þátt í Ólympíuhátíð æskunnar. Þar lenti liðið í 3.sæti eftir sigur á Hollandi í leiknum um bronsið. ,,Mér líst mjög vel á framhaldið en við erum bara á núll punkti hér. Við þurfum að stilla liðið þannig og vera tilbúnar í fyrsta leikinn á móti Færeyjum og það verður erfiður leikur," sagði Díana en íslenska liðið lék tvo æfingaleiki gegn Færeyjum fyrr í sumar og vann þá báða. Einnig mættust liðin í æfingaleikjum síðasta sumar og því ætti fátt að koma liðunum á óvart í fyrsta leik í fyrramálið. ,,Núna erum við líka aðeins komnar í öðruvísi umhverfi sem er bara gott. Þetta er frábærir einstaklingar sem gaman er að vinna með og leggja mikið á sig þannig að það verður gaman að sjá hvernig við komum inn í EM. Það er okkar í teyminu að stilla þær þannig þær verða tilbúnar og vonandi gengur það vel," sagði Díana. Díana segir stöðuna á hópnum vera góða eftir Ólympíuhátíðina þar sem liðið lék fimm leiki á sex dögum. ,,Staðan á hópnum verður þannig að allar verða klárar á morgun. Það var smá hnjask á nokkrum leikmönnum í síðustu viku en er allt á réttri leið," sagði Díana. Auk Færeyja er Ísland í riðli með Hollandi og Sviss. Liðum sem Ísland lék gegn á Ólympíuhátíðinni í síðustu viku. Liðið tapaði gegn Sviss í undanúrslitum en vann Holland eins og fyrr segir. Díana segir að markmiðin séu skýr. ,,Við stefnum á að vera í topp tveimur í riðlinum," sagði Díana að lokum í samtali við Handkastið.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.