Birkir Benediktsson ((Raggi Óla)
Mosfellingurinn, Birkir Benediktsson er á heimalið eftir árs dvöl í Japan og hefur skrifað undir samning við deildarmeistara FH. Þetta herma öruggar heimildir Handkastsins. Skrifaði Birkir Benediktsson undir samning við FH í kvöld og verður tilkynntur hjá félaginu á næstunni. Handkastið greindi frá því á dögunum að Birkir væri í viðræðum við FH. FH-ingar hafa verið í leit af örvhentri skyttu í allt sumar en Jóhannes Berg Andrason hægri skytta FH síðustu tímabil gekk í raðir danska félagsins, Tvis Holstebro í sumar. Nú hefur sú leit skilað árangri og verður Birkir leikmaður FH á næstu leiktíð. ,,Ég er á heimleið en tek mér að öllum líkindum smá frí frá handbolta," sagði Birkir í samtali við Handkastið fyrr í sumar. Um er að ræða mikla styrkingu fyrir lið FH sem hefur tekið miklum breytingum frá síðustu leiktíð en auk Jóhannesar Bergs hafa þeir Ásbjörn Friðriksson, Ólafur Gústafsson, Ágúst Birgisson og Birkir Fannar Bragason allir lagt skóna á hilluna. FH hafði áður fengið til sín Bjarka Jóhannsson frá Álaborg og línumanninn, Med Khalil Chaouachi sem kemur frá Túnis. Verður Birkir því þriðji nýliðinn í leikmannahópi FH sem kemur erlendis frá í sumar.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.