Brynjólfur Snær Brynjólfsson ((Brynjólfur Jónsson)
Örfhenti hornamaður Hauka, hinn öskufljóti Brynjólfur Snær Brynjólfsson, missir af byrjun tímabilsins vegna meiðsla. Þetta staðfesti hann í samtali við Handkastið. ,,Ég fer í aðgerð um miðjan ágúst og áætlað er að ég verði frá í allt að 4-8 vikur eftir aðgerð. Það fer eftir því hvernig endurhæfingin gengur," sagði Brynjólfur í samtali við Handkastið.
Brynjólfur hefur verið að glíma við skemmdir á ytri liðþófa á hægri fæti og fer í speglun um miðjan ágúst.
Brynjólfur sem er 32 ára er uppalinn í Haukum og hefur þjónað félaginu vel og lengi. Hefur hann spilað með Haukum allan sinn feril.
Brynjólfur lék 23 leiki með Haukum á síðustu leiktíð og skoraði 33 mörk en spil mínútur hans hafa minnkað eftir að unglingalandsliðsmaðurinn, Andri Fannar Elísson fékk stærra hlutverk í hægra horninu.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.