Handboltalega og andlega var best að koma heim
(Haukar)

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir ((Haukar)

Landsliðskonan Jóhanna Margrét Sigurðardóttir er mætt heim til Íslands úr atvinnumennsku í Svíþjóð og spilar með bikarmeisturum Hauka næstu árin. Jóhanna Margrét kemur til Hauka frá sænska félaginu Kristianstad.

Jóhanna, sem varð 23 ára fyrr á þessu ári er vinstri skytta og er uppalin í HK. Hún hefur leikið í efstu deild í Svíþjóð síðustu þrjú ár bæði með Kristianstad og Skara.

Hún á að baki 22 landsleiki og hefur skorað í þeim 11 mörk en hún var í leikmannahópi Íslands sem lék á HM 2023 og EM 2024.

Handkastið heyrði í Jóhönnu Margréti og spurði hana út í ástæðuna fyrir því að hún komi heim til Íslands á nýjan leik og ákveði að leika með Haukum.

,,Þetta var mjög erfið ákvörðun en því meira sem ég hugsaði um þetta þá hallaðist ég alltaf meira að því að koma heim. Ég er búin að vera þrjú skemmtileg ár úti enn hefur verið mjög krefjandi líka, sérstaklega síðasta árið. Það var mikið fíaskó hjá klúbbnum og í liðinu meðal annars þjálfaraskipti á miðju tímabili," sagði Jóhanna en þjálfaraskiptin höfðu áhrif á tækifæri hennar hjá liðinu undir lok síðasta tímabils.

,,Ég var að spila mikið varnarlega en fékk oft á tíðum lítið tækifæri sóknarlega. Þegar ég fékk loks að spila sóknarlega var ég ekki að spila í minni stöðu."

,,Mér fannst það vera best fyrir mig handboltalega og andlega séð á þessum tímapunkti að taka nokkur ár heima. Ásamt því að geta farið í nám hérna heima," sagði Jóhanna sem er spennt fyrir tímabilinu sem er framundan hjá Haukum.

,,Haukar er flottur klúbbur og með lið sem vill vinna titla. Stelpurnar í liðinu þekki ég margar til og veit að það er mikill metnaður hjá þeim og á sama skapi með gott þjálfarateymi sem leggja miklar áherslur á hörku æfingar," sagði Jóhanna sem viðurkennir að fleiri félög hér heima hafi sýnt henni áhuga.

,,Mér leist best á að koma í Hauka. Það eru margar stelpur í liðinu sem ég hef spilað með áður. Það hefur verið mikill stígandi í liðinu sem ég er spennt að koma inní. Varðandi deildina eru miklar breytingar, margar að hætta eða fara út og ný andlit að koma inn þannig verður spennandi að sjá hvernig deildin þróast," sagði Jóhanna sem segist stefna á að fara aftur út í atvinnumennsku síðar á ferlinum.

Olís-deild kvenna hefst laugardaginn 6.september.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top