U17 kvenna ((HSÍ)
U17 ára kvennalandslið Íslands hóf EM í Svartfjallalandi í morgun með látum með því að slátra liði Færeyja 33-15 en staðan í hálfleik 17-7 Íslandi í vil. Íslenska liðið hafði mikla yfirburði í leiknum en úr stöðunni 5-4 Íslandi í vil breyttist staðan í 10-4 og eftir það var engin spurning hvert stigin tvö færu. Ísland komst tíu mörkum yfir í stöðunni 15-5 og leiddi með tíu mörkum í hálfleik 17-7. Danijela Sara í marki Íslands var stórkostleg í markinu og hélt uppteknum hætti frá því á Ólympíuhátíð æskunnar í síðustu viku og var með sjö varða bolta í fyrri hálfleik, þar af tvö vítaköst. Í heildina varði hún fimmtán skot og var með 68% markvörslu í leiknum. Frábær leikur hjá þessum bráðefnalega markverði HK. Stelpurnar gáfu ekkert eftir í þeim seinni og komst fimmtán mörkum yfir í stöðunni 25-10 og hélt þeirri forystu allt til enda og náði mest nítján marka forystu í stöðunni 33-14 rétt fyrir leikslok en færeyska liðið skoraði síðasta mark leiksins og lokatölur því eins og fyrr segir, 33-15. Glæsilegur sigur í fyrsta leik þar sem stelpurnar náðu að hlaupa af sér hornin í fyrsta leik á stórmóti. Íslenska þjálfarateymið náði að rúlla vel á hópnum í leiknum en framundan er langt og strangt mót þar sem stelpurnar geta náð langt á mótinu enda með gríðarlega öflugt lið. Næsti leikur íslenska liðsins fer fram á morgun þegar liðið mætir því hollenska klukkan 15:00. Ísland hafði betur gegn Hollandi í bronsleik Ólympíuhátið æskunnar síðasta laugardag. Hollenska liðið á því harma að hefna í leiknum á morgun. Mörk Íslands: Laufey Helga Óskarsdóttir 6, Agnes Lilja Styrmisdóttir 6, Eva Lind Tyrfingsdóttir 5, Ebba Guðríður Ægisdóttir 5, Hekla Sóley Halldórsdóttir 3, Vigdís Arna Hjartardóttir 2, Tinna Ósk Gunnarsdóttir 2, Roksana Jaros 1, Klara Káradóttir 1. Varin skot: Danijela Sara Björnsdóttir 15 varðir - 68% markvarsla, Erla Rut Viktorsdóttir 4 varðir - 38% markvarsla.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.