Leikir gegn Serbíu og Noregi framundan – Sækja í gleðina og baráttuna
(HSÍ)

U17 kvenna ((HSÍ)

Eftir tap gegn Sviss í lokaleik U17 ára stelpnanna í riðli sínum á EM var ljóst að liðið komst ekki uppúr riðlinum eins og markmiðið var fyrir mótið. Framundan eru leikir gegn Serbíu og Noregi á mánudag og þriðjudag.

Íslenska liðið tapaði gegn Hollandi með fjórum mörkum í öðrum leik mótsins eftir að hafa unnið þær í bronsleik á Ólympíuhátíð æskunnar stuttu áður. Í kjölfarið kom stórt tap gegn Sviss í lokaleiknum.

,,Auðvitað var Hollandsleikurinn erfiður og tók toll en við vorum í gríðarlega erfiðum riðli. Það gera kannski ekki allir sér grein fyrir því en Sviss er með besta liðið í þessum aldursflokki og við vissum að það yrði á brattann að sækja gegn þeim í lokaleiknum," sagði Díana Guðjónsdóttir ein af þjálfurum liðsins í samtali við Handkastið.

Hún segir að þetta mót fari í reynslubankann hjá öllum í liðinu.

,,Við erum að læra margt nýtt og margir leikmenn að tikka í ákveðin box og aðrir sem eiga erfiða daga enda eru flestir af þessum leikmönnum á sínu fyrsta stórmóti þannig séð."

Díana vill ekki orða það þannig um vonbrigði sé að ræða þrátt fyrir að liðið hafi ekki komist upp úr riðlinum. Hún einbeitir sér að framhaldinu á mótinu enda ennþá fimm leikir eftir á mótinu.

,,Auðvitað hefðum við viljað vera í topp tveimur en við erum að hugsa núna um framhaldið. Það eru fimm leikir eftir og nóg eftir af mótinu. Nú ætlum við að núllstilla okkur og sækja í gleðina og baráttuna og gera allt sem í okkar valdi stendur til að taka næstu fimm leiki," sagði Díana Guðjónsdóttir að lokum.

Ísland fer nú í milliriðil með 12 liðum sem enduðu í 3.-4.sæti í sínum riðlum. Með góðum árangri í næstu tveimur leikjum á liðið enn möguleika á að ná 9. sæti keppninnar þar sem liðið myndi þá mæta liðum sem áttu erfitt uppdráttar í milliriðli liðanna sem enduðu í 1.-2. sæti í sínum riðlum.

Um nýtt fyrirkomulag er að ræða sem einnig var upp á teningnum hjá U19 ára kvennalandsliði Íslands á EM fyrr í sumar.

Næstu leikir liðsins:

Mánudagur: Ísland - Serbía 12:30
Þriðjudagur: Ísland - Noregur 10:00

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top