Ótrúleg endurkoma tryggði stelpunum stig gegn Serbíu
(HSÍ)

2008 kvenna ((HSÍ)

Íslensku stelpurnar í U17 ára landsliðinu léku í dag sinn fjórða leik á EM sem fram fer í Podgorica í Svartfjallalandi. Í dag voru mótherjarnir Serbía í fyrri leik af tveimur í milliriðli liðanna sem enduðu í 3. - 4.sæti í sínum riðlum.

Bæði lið fóru inn í milliriðilinn með tvö stig, Ísland eftir sigur á Færeyjum og Serbía eftir sigur á Noregi í sínum riðli. Fyrr í dag vann Noregur síðan Færeyjar í fyrsta leik milliriðilsins.

Jafnræði var með liðunu allan fyrri hálfleikinn og munaði einu marki í hálfleik. Serbía leiddi eftir fyrri hálfleikinn 18-17. Eftir að Serbía hafi skorað fyrstu þrjú mörk seinni hálfleiks og komist í 21-17 kom góður kafli hjá íslenska liðinu sem jafnaði metin í 21-21.

En þá tók við slæmi kaflinn hjá íslensku stelpunum og Serbía skoraði hvorki fleiri né færri en sex mörk í röð og voru skyndilega komnar í 27-21 forystu. Og í stöðunni 30-25 og þegar lítið var eftir þá héldu nú margir að sigurinn væri í höfn hjá Serbíu en annað kom á daginn.

Íslensku stelpurnar skelltu í lás varnarlega og skoruðu fimm síðustu mörk leiksins og tryggðu sér þar með jafntefli, 30-30 í hörkuleik.

Ebba Guðríður Ægisdóttir var markahæst íslenska liðsins með sjö mörk og Laufey Helga Óskarsdóttir kom næst með fimm mörk.

Helena Djokic var ekkert að djóka í marki Serbíu með 17 varða bolta og nálægt 50% markvörslu.

Framundan er leikur gegn Noregi í lokaleik milliriðilsins þar sem stelpunu dugar jafntefli en Noregur er stigi á eftir Íslandi fyrir leikinn. Nái Ísland stigi gegn Noregi fer liðið í krossspil um 9. sæti keppninnar. Sá leikur hefst klukkan 10:00 í fyrramálið.

Mörk Íslands: Ebba Guðríður Ægisdóttir 7 mörk, Laufey Helga Óskarsdóttir 5, Eva Steinsen Jónsdóttir 4, Eva Lind Tryfingsdóttir 4, Agnes Lilja Styrmisdóttir 3, Roksana Jaros 2, Tinna Ósk Gunnarsdóttir 2, Alba Mist Gunnarsdóttir 2, Vigdís Arna Hjartardóttir 1.

Markvarsla: Danijela Sara Björnsdóttir 7 varðir - Erla Rut Viktorsdóttir 5 varðir.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top