U17 kvenna ((HSÍ)
Díana Guðjónsdóttir ein af þjálfurum U17 ára kvennalandsliðs Íslands var sátt með stigið úr því sem komið var er liðið gerði 30-30 jafntefli gegn Serbíu í leik dagsins hjá stelpunum á EM sem fram fer í Svartfjallalandi. ,,Þetta var erfiður leikur í dag þar sem allt var í járnum. Við vissum að þetta yrði erfitt varnarlega, Serbarnir eru duglegir að sækja á maður á mann og það reyndi mikið á miðsvæðið okkar. Við fórum síðan í 5-1 vörn og þegar rúmlega tíu mínútur eru eftir eru þær með sex marka forystu," sagði Díana í samtali við Handkastið. Díana segir að þjálfarateymið hafi verið meðvitað um að hvert mark og hvert stig myndi skipta miklu máli upp á framhaldið og því hafi þjálfarnir takið leikhlé og stillt liðið af fyrir lokakaflann. ,,Við áttum geggjaðan lokakafla þar sem við fáum víta undir lokin og skorum og jöfnum leikinn." ,,Þetta var virkilega mikilvægt stig upp á framhaldið og núna hvílum við okkur vel. Það voru margar sem komu sterkar inn í þennan leik. Hekla Sóley kom til dæmis frábærlega inn í varnarleikinn, við erum sátt með stigið úr því sem komið var," sagði Díana að lokum. Íslenska liðið mætir því norska í fyrramálið klukkan 10:00 á íslenskum tíma.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.