HB Ludwigsburg ((MARIJAN MURAT / dpa Picture-Alliance via AFP)
Þýska meistaraliðið, HB Ludwigsburg hefur leyst alla leikmenn sína af samningum. Þetta var tilkynnt nú síðdegis í dag. Félagið kom handboltaheiminum á óvart fyrir tveimur vikum með því að óska eftir gjaldþrotaskiptum. Nú hefur félagið gefið öllum leikmönnum grænt ljós á að skipta um félagið og er því ljóst er að lífróður stjórnenda HB Ludwigsburg síðustu vikur hefur ekki borið tilsettan árangur. Félagið heldur því nú fram að enginn „efnahagslegur grundvöllur“ sé fyrir hendi. Engu að síður hefur félagið enn von um þátttöku í keppninni. Þetta kemur fram á Handball-world.news. ,,Þrátt fyrir ítarlegar viðræður við alla aðila sem að málinu komu, fannst engin raunhæf lausn til að tryggja fjármögnun fyrir komandi tímabil. Fjárhagsbilið, sem hefur myndast yfir langan tíma, hefur ekki verið brúað síðan bráðabirgðagjaldþrotaskipti voru fyrirskipuð fyrir um tveimur vikum. Í ljósi þessa er enginn efnahagslegur grundvöllur fyrir því að halda áfram að binda leikmenn HB Ludwigsburg við núverandi samninga sína," segir í yfirlýsingu frá þýska meistaraliðinu. „Ákvörðunin var ekki auðveld fyrir okkur, en hún var óhjákvæmileg eftir vandlega íhugun,“ útskýrir Dr. Holger Leichtle, bráðabirgðaskiptastjóri gjaldþrotaskipta. „Við þessar aðstæður er óraunhæft að leikmennirnir séu áfram bundnir við samninga sína. Við upplýstum liðið um stöðuna í dag.“ Félagið telur þessa þróun einnig miður. Stjórnin leggur áherslu á að mikil vinna hefur verið lögð í að finna lausn á undanförnum vikum þar á meðal að hafa samband við fjölmörg fyrirtæki til að veita stuðning. „Við reyndum mikið, en að lokum dugði það því miður ekki til að brúa bilið,“ sagði stjórn félagsins. Allir leikmenn þýska meistaraliðsins HB Ludwigsburg eru því lausir undan samningum við félagið. Þeim er frjálst að fara þegar í stað enda er ljóst að félagið getur ekki staðið við einn einasta samning. Um er að ræða mikið reiðarslag fyrir bæði þýskan handbolta og alþjóðlegan kvennahandbolta en félagið hefur orðið þýsku meistari fjögur ár í röð auk þess að vinna bikarkeppnina fjórum sinnu á síðustu fimm árum. Miðað við yfirlýsingu félagsins ætlar félagið áfram að senda lið sitt til keppníi þýsku úrvalsdeildinni en þó í mýflugu mynd miðað við undanfarin ár. Þá er líklegt að félagið byrji með mínus átta stig þegar deildin fer af stað. Þá er einnig óljóst hvaða þýðingu þessi ákvörðun hefur á þáttöku liðsins í Meistaradeildinni en spekingar vilja meina að þetta gæti haft þau áhrif að EHF vísi liðinu úr keppni í Meistaradeildinni. Það verður hinsvegar að koma í ljós á næstu dögum en keppni í Meistaradeildinni hefst 5. september.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.