Gísli Rúnar Jóhannsson ((Þorgils Garðar Gunnþórsson)
Hinn tvítugi leikstjórnandi, Gísli Rúnar Jóhannsson, sem er á mála hjá Aftureldingu hefur verið að glíma við erfið meiðsli sem munu halda honum frá vellinum næstu mánuði. Þetta hefur hann staðfest í samtali við Handkastið og tjáði hann sig aðeins um meiðslin. ,Ég er með tvöfalt brjósklos sem var greint af heila og taugaskurðlækni eftir að hafa séð myndir úr segullómun. Hann taldi þetta vera frekar alvarlegt brjósklos sem gæti þurft aðgerð og var meira á því að ég ætti að fara i aðgerð heldur en að láta þetta bara dragast til baka þvi þetta var alveg risastórt brjósklos. Þannig ég fór i aðgerð 16 júní síðastliðinn og mátti ekki hitta sjúkraþjálfara fyrr en 4 vikum seinna en núna er ég kominn af stað í endurhæfingu. En ég held að það sé nokkuð ljóst að ég verð ekki leikfær fyrr en eftir áramót," sagði Gísli Rúnar En hvernig gengur endurhæfingin? ,,Hún gengur fínt, er bara nýbyrjaður, mjög léttar æfingar, reyna að liðka mjaðmirnar og virkja vöðva í kringum svæðið hægt og rólega. Er líka byrjaður að mega hjóla. Þetta er bara allt á byrjunarstigi ennþá og langt verkefni framundan."
Gísli Rúnar Jóhannsson er sem fyrr segir tvítugur leikstjórnandi og alinn upp hjá Haukum. Á vormánuðum 2023 samdi hann við Aftureldingu. Lék hann einnig sem lánsmaður hjá Fjölni á síðastliðnu leiktímabili. Skoraði hann 25 mörk fyrir Fjölni í 12 leikjum. Hann er skapandi leikstjórnandi með næmt auga fyrir spili.
Handkastið óskar Gísla Rúnari góðs bata í sínum erfiðu meiðslum og vonar að hann nái sér að fullu sem fyrst.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.