U17 kvenna ((HSÍ)
Íslenska kvennalandsliðið skipað leikmönnum 17 ára og yngri tapaði gegn Noregi á Evrópumótinu sem fram fer í Svartfjallalandi um þessar mundir. Norska liðið hafði betur með þremur mörkum, 35-32 og fer þar með uppfyrir Ísland í milliriðlinum. Laufey Helga Óskarsdóttir endaði langmarkahæst í liði Íslands með 12 mörk og er hún sem stendur þriðja markahæst á mótinu en þó gæti það breyst í dag þegar fleiri leikir verða leiknir. Eftir jafnan og spennandi fyrri hálfleik þar sem Ísland hafði undirtökin til að byrja með þá kom slæmur kafli hjá íslensku stelpunum og þær norsku breyttu stöðunni úr 9-9 í 18-12. Íslensku stelpurnar hafa hinsvegar sýnt það á þessu móti að þær koma yfirleitt til baka og það gerðu þær með því að skora fimm síðustu mörk fyrri hálfleiks og minnkuðu muninn í 18-17 fyrir hálfleik. Í stöðunni 21-20 fyrir Noregi kom hinsvegar aftur slæmur kafli hjá íslenska liðinu þar sem Noregur skoraði níu mörk gegn einu marki Íslands. Staðan því skyndilega orðin 30-21 en þetta er ekki í fyrsta sinn sem íslenska liðið á slæman kafla í seinni hálfleik en fyrr á mótinu lentu þær einnig í 9-1 kafla gegn Hollandi og í gær skoruðu Serbar sex mörk í röð í seinni hálfleik. Í gær náði íslenska liðið hinsvegar ótrúlegri endurkomu og jöfnuðu metin en í dag náði liðið ekki að brúa bilið og koma almennilega til baka. Þegar upp var staðið náði liðið þó að minnka muninn í þrjú mörk og lokatölur 35-32 fyrir Noregi. Lokaleikur riðilsins hefst klukkan 12:30 þegar Svartfjallaland og Færeyjar mætast. Eftir þann leik kemur í ljós hvert framhald stelpnanna verður á mótinu. Mörk Íslands: Laufey Helga Óskarsdóttir 12 mörk, Eva Lind Tyrfingsdóttir 6, Tinna Ósk Gunnarsdóttir 3, Roksana Jaros 2, Hekla Sóley Halldórsdóttir 2, Agnes Lilja Styrmisdóttir 2, Valgerður Elín Snorradóttir 2, Vigdís Arna Hjartardóttir 1, Ebba Guðríður Ægisdóttir 1, Guðrún Ólafía Marinósdóttir 1. Markvarsla: Danijela Sara B. Björnsdóttir 12 varðir, 32% markvarsla - Erla Rut Viktorsdóttir 3 varðir - 18% markvarsla.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.