Sem kona þarf maður að hugsa fram í tímann
(Baldur Þorgilsson)

Elín Rósa Magnúsdóttir ((Baldur Þorgilsson)

Landsliðskonan, Elín Rósa Magnúsdóttir yfirgaf Val í sumar og gekk í raðir þýska liðsins, Blomberg-Lippe þar sem hún hittir fyrir, liðsfélaga sína í íslenska landsliðinu, Díönu Dögg Magnúsdóttur og Andreu Jacobsen.

Elín Rósa sem er uppalin í Fylki fór ung til Vals og var á Hlíðarenda í sex tímabil. Handkastið hafði samband við Elínu sem er mætt til Þýskalands og byrjuð að æfa með sínu nýja félagi. Við báðum hana um að gera upp tímann sinn hjá Val en félagið endaði sem Íslands, deildar- og Evrópubikarmeistari á síðustu leiktíð.

Ætlaði sér aldrei til Þýskalands

,,Þetta voru mögnuð sex ár sem ég fékk með Val, alveg frá því að vera 3. flokks leikmaður sem fær tækifæri í leikjum sem eru unnir yfir í það að byrja flesta leiki og bera ábyrgð. Ég held að þessi liðsheild sé ein sú besta sem ég mun nokkurn tímann vera hluti af og það er það mikilvægasta sem ég tek með mér. Árangurinn er náttúrulega frábær og við vorum alltaf í toppbaráttu sem er ekki sjálfsagt en sýnir standardinn hjá félaginu," sagði Elín Rósa sem var ekkert að spara lýsingarorðin um tímann sinn hjá Val.

Nú er hinsvegar komið að nýju kafla á handboltaferli Elínar sem er mætt til Þýskalands. En var Þýskaland alltaf fyrsti kostur?

,,Alls ekki. Ég ætlaði mér aldrei til Þýskalands. Ég sá fyrir mér að fara til Danmerkur eða Noregs. Ég hef alveg íhugað það áður að fara út að spila en fannst þessi tímapunktur og þetta lið passa best. Það voru alveg einhverjir möguleikar í boði en Blomberg var eina liðið sem ég fór í almennilegar viðræður við," sagði Elín Rósa en afhverju valdi hún Blomberg-Lippe sem næsta kafla á ferlinum?

,,Ég var ekki mjög seld þegar þau höfðu fyrst samband en kynningin frá þeim kom mér mjög á óvart. Þau voru mjög áhugasöm og sýndu mikinn metnað. Það hjálpar auðvitað að hafa Andreu og Díönu og ég hafði snemma samband við þær. Þá fékk ég góða innsýn í félagið sem ég hefði annars ekki fengið."


,,Ég er virkilega spennt fyrir þessu verkefni. Liðinu gekk mjög vel á síðasta tímabili þannig maður vill auðvitað byggja ofan á það án þess að fara eitthvað fram úr sér í væntingum."

Krefjandi að tala ekki tungumálið

Hún segir mikil viðbrigði að vera mætt í nýtt land og byrjuð að æfa með einu besta liði Þýskalands.

,,Það er auðvitað mikið æft og alls konar um að vera sem þjappar hópnum saman sem er mikilvægt. Það hafa allir tekið mjög vel á móti mér, hvort sem það eru stelpurnar í liðinu eða starfsmenn félagsins. Það er krefjandi að tala ekki sama tungumál og flestir leikmenn, sérstaklega sem leikstjórnandi en ég held að það komi fljótt," sagði Elín se segir það vera nokkur skref framar að æfa í því umhverfi sem er hjá Blomberg-Lippe miðað við á Íslandi.

,,Annað væri óeðlilegt. Það var samt mikill agi hjá Val og æfingakúltúrinn góður sem gefur mér góðan grunn. Undirbúningstímabilið byrjar mun fyrr hér úti en til dæmis heima og fyrstu vikurnar var mikið hlaupið og enginn bolti."

Með handboltanum stundar Elín Rósa nám. Hún vonast til að geta klárað BS gráðuna á meðan hún er úti.

,,Þá er kannski minna stress að komast aftur heim. Ég væri til í að eiga nokkur ár úti, hvort sem þau verða öll í Þýskalandi eða ekki og koma svo heim og fara í master. Maður er ekki í handbolta að eilífu og þarf því að hugsa fram í tímann, sérstaklega sem kona," sagði Elín Rósa Magnúsdóttir að lokum í samtali við Handkastið.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top