U17 liðið eftir leik ((HSÍ)
Íslenska kvennalandsliðið skipað leikmönnum 17 ára og yngri sigraði Rúmeníu í dag á Evrópumótinu sem fram fer í Svartfjallalandi um þessar mundir. Íslensku stelpurnar höfðu betur og unnu með sex mörkum, 32-26. Þær mæta Austurríki á morgun, föstudag, klukkan 17:30 og spila um að komast í leikinn um 17.sætið á mótinu. ,,Frábær frammistaða í dag. Við náðum loksins að spila hörku vörn og lögðum mikla áherslu á það í undirbúningnum að við vildum fá skotin fyrir utan svo við lágum aðeins aftar á vellinum. Danijela var geggjuð í markinu fyrir aftan og fengum upp úr því fullt af hraðupphlaupum og auðveld mörk" sagði Hilmar Guðlaugsson, annar af tveimur þjálfurum liðsins. ,,Sóknarleikurinn var líka mjög góður, tapaðir boltar í lágmarki og í rauninni ekki neinn kafli í leiknum þar sem við dettum eitthvað langt niður. Þetta var svona heilsteipt og góð frammistaða, jafnvel sú besta í mótinu hingað. Klárlega besta varnarframmistaðan. Það var góð orka í liðinu, mikil barátta og virkilega sætur og mikilvægur sigur fyrir hópinn". ,,Undirbúningur byrjar núna fyrir Austurríki á morgun og ætlum við okkur að vinna hann og spila um 17. sætið á mótinu." sagði Hilmar að lokum í samtali við Handkastið.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.