Saga Sif Gísladóttir (Raggi Óla)
Markvörðurinn, Saga Sif Gísladóttir sem leikið hefur verið með Aftureldingu síðustu tvö tímabil hefur rift samningi sínum við Aftureldingu. Þetta staðfesti hún í samtali við Handkastið. Saga lék með liði Aftureldingar í Olís-deild kvenna tímabilið 2023/2024 og á síðustu leiktíð í Grill66-deildinni. Hún átti eitt ár eftir af samningi sínum við félagið en hefur nú rift samningi sínum og er laus allra mála. Saga Sif segir að vegna anna í eiginrekstri og að fjölskyldan væri flutt til Hafnarfjarðar hafi haft stór áhrif á ákvörðun sína. ,,Ég hef verið að minnka við mig í handboltanum að undanförnu en hef samt alltaf viljað halda mér í íþróttinni. Nú eru hinsvegar breyttar forsendur hjá mér og ég sá því ekki fyrir mér að geta verið jafn mikið og ég vildi," sagði Saga Sif í samtali við Handkastið. Saga er fatahönnuður og rekur fatavöruverslunina, Sage by Saga Sif en hún vinnur hörðum höndum að því að opna fataverslun í Kópavogi á næstu vikum. Saga Sif segist þó ekki vilja segja skilið við íþróttina og er nú að æfa með bikarmeisturum Hauka. Hún er nú á leið með liðinu í æfingaferð til Tenerife. ,,Haukar heyrðu í mér þar sem þeim vantaði markmann inn á æfingar og ég fer með þeim í æfingaferð. Síðan verður það að koma bara í ljós hversu mikið ég verð með þeim í vetur. Það hefur ekkert verið rætt og það þarf svolítið að koma í ljós hversu mikið ég get tekið þátt. Það er bara svo gaman í handbolta og vera hluti af skemmtileguhóp að ég get ekki hætt," sagði Saga Sif að lokum í samtali við Handkastið. Það yrði gríðarlegur liðstyrkur fyrir Hauka að fá eins reynslu mikinn markmann til sín rétt fyrir mót en Saga Sif var á sínum tíma viðloðandi íslenska kvennalandsliðið og lék með kvennaliði Vals á sínum tíma. Meiðsli hafa sett strik í reikninginn hjá Sögu sem gekk með barn árið 2022.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.