wSelfossSelfoss (Eyjólfur Garðarsson)
Handkastið hefur verið leiðandi í umfjöllun um íslenskan handbolta síðustu ár og nú fer að styttast í að tímabilið hér heima fari af stað. Handkastið heldur úti tveimur hlaðvarpsþáttum í viku þegar tímabilið er í gangi auk þess að fjalla vel og ítarlega um allt sem tengist íslenska boltanum hér á vefnum. Olís-deild kvenna hefst laugardaginn 6.september en þangað til ætlar Handkastið að hita upp fyrir deildina og fjalla um öll liðin í deildinni. Í dag er 19 dagar þangað til Olís-deild kvenna hefst og því löngu orðið tímabært að kynna sér liðin í deildinni. Í dag förum við yfir lið Selfoss. Selfoss liðið var hvorki í fallbaráttu né toppbaráttu á síðustu leiktíð. Þeirra helsti keppinautur var ÍR en liðið tapaði gegn ÍR í úrslitakeppninni. Liðið hefur orðið fyrir blóðtöku frá síðustu leiktíð og það er ærið verkefni framundan hjá Eyþóri Lárussyni að finna lausnir á þeim vandamálum sem eru til staðar hjá liðinu. Þjálfarinn: Breytingar:
Eyþór Lárusson tók við liðinu sumarið 2022 og er því á leið inn í sitt fjórða tímabil með liðið. Liðið hefur farið í gegnum ýmislegt á þeim tíma. Félagið gerði tilkall til að verða eitt af topp félögum landsins en í þann mund féll liðið óvænt. Nú virðist vera kominn smá stöðugleiki í liðið.
Selfoss hefur misst Kötlu Maríu Magnúsdóttur til Danmerkur sem verður risa verkefni fyrir þjálfarateymið og liðið að fylla. Eins hefur hópurinn minnkað frá síðustu leiktíð. Markmannsvandræðin halda áfram á Selfossi en á tímabili var Ágústa Tanja eini markvörður liðsins. Liðið hefur ekki fyllt skarðið sem Cornelia skildi eftir sig. Perla Ruth er ólétt og þá hafa fleiri leikmenn horfið á braut sem skiluðu alltaf sínu.
Lykilmenn:
Harpa Valey Gylfadóttir, Hulda Dís Þrastardóttir, Mia Kristin Syverud
Fylgist með:
Ída Bjarklind Magnúsdóttir er komin aftur á Selfoss eftir veru sína í höfuðborginni. Hefur verið markahæsti leikmaður Víkings í Grill66-deildinni síðustu þrjú tímabil en mætir nú aftur til leiks í Olís-deildina. Stórskytta sem mörg lið í Olís-deildinni hafa haft augun á síðustu tímabil. Hlutverk hennar er að reyna fylla það skarð sem Katla María skilur eftir sig.
Framtíðin:
Eva Lind Tyrfingsdóttir er örvhentur hornamaður sem fékk smjörþefinn af meistaraflokksreynslu á síðustu leiktíð þrátt fyrir að vera enn í 4.flokki. Er fædd árið 2009 og var í U17 ára landsliði Íslands sem tók þátt í tveimur verkefnum í sumar.
Við hverju má búast:
Selfoss verður að sigla um miðja deild en gætu hæglega nálgast fallbaráttuna. Hópurinn er lítill, reynsla hefur farið úr hópnum og mörg mörk frá síðasta tímabili. Ef liðið lendir í neikvæðum spíral gæti þetta orðið langt og erfitt tímabil á Selfossi.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.