Donni komst áfram með liði sínu Skanderborg Aarhus í dag (Kristinn Steinn Traustason)
Síðustu tveir umspilsleikirnir í forkeppni Evrópudeildarinnar fóru fram í dag og er nú ljóst hvaða lið taka þátt í riðlakeppninni sem hefst þriðjudaginn 14. október næstkomandi. Kristján Örn Kristjánsson (Donni) og félagar í SAH - Aarhus fóru í heimsókn til Miritimo da Madeira og sottu þar 5 marka sigur 31-36. Donni skoraði þrjú mörk úr þremur skotum í dag. SAH - Aarhus unnu því einvígið 74-56 samanlagt. BSV Bern unnu Cakovec í seinni leik dagsins 42-27 og einvígið samanlagt 73-55. Framundan er því riðlakeppni Evrópudeildarinnar sem hefst þriðjudaginn 14. október. Eftir leiki helgarinnar er nú orðið ljóst hvaða lið taka þátt þar. Birgir Steinn Jónsson og liðsfélagar hans í IK Sävehof unnu sér þátttökurétt um helgina, það gerðu Arnór Viðarsson og félagar í HF Karlskrona sömuleiðis. Hannover-Burgdorf komust framhjá Monsa og félögum í HC Alkaloid og Tryggvi Þórisson og félagar í Elverum komust áfram sömuleiðis. Auk þessara frábæru fulltrúa Íslands bíða nú fjölmargir Íslendingar eftir því að fá sviðið með liðum sínum en Fram mun spila í D riðli þar sem þeir munu meðal annars fá Þorstein Leó Gunnarsson og félaga í Porto í heimsókn í fyrstu umferðinni. Í E riðli munu svo Arnar Freyr Arnarsson og Reynir Þór Stefánsson í MT Melsungen mæta Stiven Tobar Valencia og félögum í Benfica. Lærisveinar Guðmundar Þórðar Guðmundssonar í danska liðinu Fredericia munu svo spila í G riðli og Óðinn Þór Ríkharðsson og félagar í Kadetten Schaffhausen munu spila í H riðli.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.