Daníel Þór Ingason - Sandra Erlingsdóttir (ÍBV handbolti)
Sandra Erlingsdóttir fór á kostum í 1.umferðinni í Olís-deild kvenna um helgina og var valinn leikmaður umferðarinnar á Handkastinu. Leikmenn umferðarinnar í Olís-deild kvenna fá gjafabréf frá Sage by Saga Sif. Sandra skoraði hvorki fleiri né færri en 13 mörk og gaf átta stoðsendingar. Það sem gerir þetta ennþá skemmtilegra að þetta gerði hún í alls þremur treyjum. Já þið lásuð rétt. Sandra er mætt í Olís-deildina með látum og það miklum látum að hún lætur það ekki duga að spila í einni treyju, eða tveimur heldur þremur treyjum í sama leiknum. Sandra hóf leik í sinni treyju númer 21 en í fyrri hálfleik þurfti hún að fara í nýja treyju eftir að blóð fór í treyjuna hennar. Þá fór hún í treyju númer 25. Í hálfleik skipti hún síðan í þriðju treyjuna og lék númer 91 allan seinni hálfleikinn. ,,Ég fékk blóð í búninginn og auka búningurinn sem ég fékk var í XXL sem passar ekki alveg á konu í minni stærð. Ég fékk því þriðja búninginn í hálfleik og kláraði leikinn í honum," sagði Sandra í samtali við Handkastið. Handkastið man ekki eftir að hafa séð handboltaleik þar sem eini og sami leikmaðurinn hafi leikið í þremur mismunandi treyjum en alltaf er einu sinni fyrst.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.