HSÍ merki (HSÍ)
HSÍ tilkynnti nýja ásýnd á kynningarfundi sínum í Valsheimilinu laugardaginn 30.ágúst síðastliðinn. Á þeim fundi kynnti HSÍ til að mynda nýtt merki sambandsins sem hefur farið misvel í mannskapinn eins og gefur að skilja. Handkastið hefur orðið var við þá umræðu um það hvort HSÍ hafi mátt í raun og veru breyta merki sínu sí svona án þess að spyrja kóng né prest. Skoðum aðeins lög HSÍ: Í 1. grein laga Handknattleikssamband Ísland segir meðal annars: ,,Merki HSÍ sýnir knott með HSÍ skammstöfunina. Bókstafir eru í íslensku fánalitunum og knöttur er brúnn.” ,,Fáni HSÍ er hvítur með merki HSÍ í miðju og orðin ,,Handknattleikssamband Íslands” efst í fána.” Í 3. kafla laga HSÍ undir yfirskriftinni ,,Skipulag HSÍ” segir í 7. grein laganna ,,Stjórnkerfi HSÍ” meðal annars: a. handknattleiksþing sem fer með æðsta vald í málefnum HSÍ og setur lög sambandsins. Handkastið veltir því fyrir sér hvort löglegt hafi verið hjá HSÍ að breyta 1.grein laga Handknattleikssamband Íslands þar sem segir hvernig merki HSÍ sé. Í 12. gr. atkvæðagreiðsla segir: ,,Einfaldur meirihluti ræður úrslitum nema um lagabreytingar sé að ræða, þá þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða.” Því hefði þurft rúmlega 66% samþykki viðstaddra fulltrúa á ársþingi HSÍ til að fá breytingu HSÍ merkisins í gegn á ársþingi HSÍ miðað við þetta. Það sem vekur athygli í lögum HSÍ er að sagt er að stjórn HSÍ líti eftir því að lög HSÍ, reglugerðir HSÍ og leikreglur séu haldnar og getur hún vísaað brotum aðila til aganefndar HSÍ til úrskurðar. Þar segir að stjórn HSÍ hafi heimild til að beita viðurlögum vegna brota á lögum, reglugerðum og leikreglum. Viðurlögin geta verið leikbönn, tímabundið bann, áminning, ávítur og sektir. Nú er spurning hvort stjórn HSÍ setji sjálfan sig í leikbann, tímabundið bann, gefi sér áminningu, ávítur eða sekti sjálfan sig. ,,Stjórn HSÍ og allir þeir sem koma fram á vegum HSÍ skulu fara eftir þeim lögum, siðareglum og reglugerðum sem gilda á hverjum tíma,” segir enn frekar í lögum HSÍ. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta mál þróast en Handkastið telur það alvarlegt mál ef HSÍ er farið að brjóta sín eigin lög með þessum hætti. Hvort stjórn HSÍ setji sjálfan sig í leikbann eða tímabundið bann verður áhugavert að sjá. Það verður hinsvegar tíminn að leiða í ljós. Þangað til leyfum við gamla merkinu að vera sýnilegt.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.