Kári Kristján Kristjánsson (Eyjólfur Garðarsson)
Handkastið greindi frá því fyrst allra að Kári Kristján Kristjánsson væri í viðræðum við Þór um að leika við liðinu í Olís-deildinni í vetur. Kári staðfesti það síðan í samtali við Handkastið í gær. Rætt var um málið í nýjasta þætti Handkastsins í morgun. Þar sagðist Stymmi klippari vera 99% klár á því að hann myndi semja við Þór. ,,Ég held að það hlakki líka svolítið í honum að geta brugðið fóti fyrir sína gömlu menn í Eyjum og reyna skemma fyrir þeim. Þó liðin væru ekki endilega í sömu baráttu þá held ég að honum klæji í puttana að fara til Eyja með Þórsarana og reyna hrista upp í þessu,” sagði Stymmi. Ásgeir Jónsson þekkir Kára Kristján vel en Ásgeir var gestur Handkastsins. ,,Þekkjandi Kára vel þá veit ég að ef það er eitthvað sem hann hatar þá er það að enda ekki hlutina á sínum forsendum. Það kæmi mér ekkert á óvart ef Kári myndi semja við Þór og klára tímabilið þar. Því hann vill enda sinn feril á sínum forsendum,” sagði Ásgeir. Kári sagði í samtali við Handkastið að hann gerði ráð fyrir því að hans mál myndu skýrast fyrir eða um helgina. Þór mætir Fram í Úlfarsárdalnum í lokaleik 2.umferðarinnar á morgun klukkan 17:00. Kári Kristján útilokaði að hann myndi spila þann leik ef hann myndi semja við Þór fyrir þann tíma.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.